151. löggjafarþing — 90. fundur,  5. maí 2021.

loftferðir.

613. mál
[19:05]
Horfa

Guðjón S. Brjánsson (Sf):

Herra forseti. Ég vil fjalla í örstuttu máli um nefndarálit með breytingartillögu um frumvarp til laga um breytingu á lögum um loftferðir, nr. 60/1998, en þau lög eru nú til endurskoðunar eða það liggur fyrir nýtt frumvarp fyrir umhverfis- og samgöngunefnd og bíður umfjöllunar. Það er mikill lagabálkur. Við fjöllum hér um lítinn anga núgildandi laga um loftferðir sem fjallar um skyldur flugrekenda vegna Covid-19. Þetta er talsvert mikilvægt frumvarp og aðkallandi. Það þarf að vinna að þeim verkefnum sem bíða okkar og sem við erum í miðju kafi í varðandi heimsfaraldur með skipulögðum og markvissum hætti. Það þarf ekkert að fjölyrða um að um verkefnið er í rauninni rík samstaða. Við tölum um að í húfi sé þjóðarheill og þjóðarhagsmunir og í umfjöllun umhverfis- og samgöngunefndar kom skýrt fram að það er enginn ágreiningur um markmiðið og mikilvægi þess að tryggja sóttvarnir eins og kostur er.

Frumvarpið hefur verið til umfjöllunar í nokkrar vikur og þetta mikla álitamál var afgreitt úr nefndinni í ágreiningi. Það liggja fyrir þrjú nefndarálit og ég er hluti af nefndaráliti 1. minni hluta. Við í Samfylkingunni höfum verið einbeitt og stutt ítarlegar tillögur í því efni að bregðast við þessum vágesti sem er Covid-19 með ábyrgum hætti og höfum stutt málefnin á ágætum grundvelli þess en við höfum gert miklar athugasemdir við aðferðir og nálgun sem hefur verið viðhöfð. Formaður velferðarnefndar, hv. þm. Helga Vala Helgadóttir, hefur frá upphafi Covid-umfjöllunar lagt á það áherslu að öll skref sem við stígum, sem eru afdrifarík og hafa áhrif á líf og hagi einstaklinga og fjölskyldna á Íslandi, verði að hafa sterkan lagagrundvöll og styðjast við skýr lög. Reglugerðir sem settar eru verði að styðjast við skýrar lagaheimildir, verði að samrýmast lögum. Þar hefur okkur því miður svolítið orðið fótaskortur.

Í þessu efni er það hin lagalega umgjörð sem er umhugsunarefni og þarna liggur efinn. Það hefur verið skírskotað til sjálfra grundvallarlaganna í íslensku samfélagi, stjórnarskrárinnar, og vísað til 2. mgr. 66. gr. laganna, þar sem segir, með leyfi forseta: „Íslenskum ríkisborgara verður ekki meinað að koma til landsins né verður honum vísað úr landi.“ Það verður ekki skýrara og er fortakslaust, eins og hefur komið fram og það er, eins og hv. framsögumaður 1. minni hluta, Hanna Katrín Friðriksson, nefndi, auðvitað viðlíka ákvæði í viðauka mannréttindasáttmála Evrópu. Þess vegna viljum við staldra við og fara varlega. Ef þetta frumvarp verður að lögum þýðir það að í tilteknum tilvikum verði flugrekendum gert skylt að synja íslenskum ríkisborgurum um komu til landsins hindrunar- og tafarlaust. Það vekur athygli að þetta er sólarlagsákvæði, þetta er tímabundið ákvæði en gildir til ársloka 2022. Ráðherra er raunar gert að setja reglugerð og endurskoða hana á fjögurra vikna fresti. En þetta tímabundna ákvæði til ársloka 2022 vekur auðvitað umhugsun í ljósi þess hve langur tími þetta er miðað við þær breytingar sem gerðar voru nýlega á sóttvarnalögum.

Eins og fram kom í máli framsögumanns bæði meiri hluta og 1. minni hluta, fór fram mikil umræða í umhverfis- og samgöngunefnd um þetta ákvæði. Við fengum þrjá sérfræðinga í stjórnskipunarrétti til að koma á okkar fund í jafn mörg skipti til að ræða sérstaklega þetta ákvæði, 66. gr. Það voru dálítið skiptar skoðanir eða áferðarmunur á viðhorfum sem þar ríkti. Niðurstaða okkar sérfræðinga var alls ekki afgerandi og háð miklum fyrirvörum. Það er kannski fullmikið sagt að það hafi verið skiptar skoðanir, en sýn þeirra og álit skjóta raunar ekki styrkari stoðum undir lagasetningu þessa að okkar áliti, lagasetningu sem kallast svo sterklega á við fortakslaust ákvæði stjórnarskrárinnar. Það bar á góma í samtölum okkar hvort þessi lagasetning væri yfir höfuð nauðsynleg og hvort ekki væri bara eðlilegt að leggja hana til hliðar í ljósi þróunar mála. Ákvæði sóttvarnalaga hefðu verið styrkt og nú væri orðið auðveldara að hemja útbreiðslu faraldursins. En að höfðu samráði við ráðuneytin þrjú, eins og kom fram hjá framsögumanni meiri hluta, var það niðurstaðan að þetta væri talið brýnt vegna þjónustunnar sem færi vaxandi, umferð færi vaxandi, og þar með vegna öryggis farþega og það væri mat þeirra að eðlilegt væri að grípa til þessarar lagasetningar.

Síðan var fjallað um hvað þetta innibæri, að skylda flugrekendur til að krefja farþega um tiltekin vottorð og, ef þau vottorð væru ekki fyrir hendi, að synja þeim um byrðingu, þ.e. að ganga um borð í farþegaflugvél. Jafngildir það því að verið sé að synja þeim að koma til síns heima með vísan til 66. gr.? Eða má réttlæta það með því að segja: Ekki bara akkúrat núna, þér er heimilt að koma þegar þú hefur fengið tilskilin vottorð? Um þetta stendur styrinn því að flugið er í raun og veru eini möguleiki viðkomandi til að komast til síns heima ef sá hefur á því þörf og aðstæður viðkomandi eru þannig að það sé knýjandi. Það er langsótt að vísa til þess að það séu skip á ferðinni og hægt að bjóða viðkomandi að taka sér far með einhverjum slíkum farkosti. Það má draga upp ýmsar sviðsmyndir af þeirri stöðu sem skapast getur við þessar aðstæður hjá Íslendingum, hugsanlega barnafjölskyldum, sem hafnað er að ganga um borð samkvæmt fyrirhuguðum ætlunum í erlendri flughöfn. Hv. framsögumaður 1. minni hluta fór ágætlega yfir þær aðstæður sem kunna að skapast.

Herra forseti. Það er annað sem ástæða er til að drepa á en ekki í löngu máli, en það er flugöryggisþátturinn sem lítið hefur verið fjallað um.

Eins og fram hefur komið er ekkert dómafordæmi til varðandi þetta ákvæði að svo komnu máli. Að okkar áliti í 1. minni hluta þýðir það auðvitað að löggjafanum ber að stíga afar varlega til jarðar í máli sem þessu og það sé óvarlegt að samþykkja frumvarp með það undirliggjandi að á tiltekið ákvæði hafi ekki reynt fyrir dómi og jafnvel gefa boltann upp að því leyti í ljósi nýgenginna hrakfara. Sporin hræða. En án efa er hér um mjög áhugavert efni að ræða í lögfræðilegu tilliti.

Í ljósi þess að endurskoðun laga um sóttvarnir hefur farið fram og það ríkja nú miklu betri varnir hvað það varðar þá telur 1. minni hluti að lagasetning sem boðuð er með þessu frumvarpi geti í rauninni skapað áframhaldandi óvissu og jafnvel einhvern núning og átök og skapað þannig í framkvæmd meiri vanda og 2. minni hluti nefndi að hugsanlega gætu verið skaðabótamál undir.

Herra forseti. Það er rétt að árétta að það var mat meiri hluta umhverfis- og samgöngunefndar að láta hér staðar numið í umfjöllun nefndarinnar, það yrði ekki lengra komist. Þó svo að við kölluðum til fleiri ráðgjafa, fleiri lögspekinga, yrði þetta í stórum dráttum niðurstaðan. Það var ákvörðun að afgreiða nefndarálitið með þeim hætti sem nú hefur verið kynnt. Það yrði ekkert lengra komist. Við getum kannski kallað það kalt mat. Það yrði þá að koma í ljós í framhaldinu hvað yrði, það yrði að fara eins og fara vill.

Herra forseti. 1. minni hluti leggur fram þessa breytingartillögu fyrst og fremst með þessari sterku skírskotun til grundvallarlaga okkar, til stjórnarskrárákvæðisins í 2. mgr. 66. gr. Það er rétt að taka fram að markmið frumvarpsins í hinu stóra og hinu heila styðjum við fullum fetum og iðum í skinninu, eins og öll heimsbyggðin auðvitað, að ná yfirtökum í þessum langvarandi slag við illvíga veiru. En við teljum að hér hefðum við kannski átt að fara ögn meira með löndum.