151. löggjafarþing — 90. fundur,  5. maí 2021.

loftferðir.

613. mál
[19:21]
Horfa

Guðjón S. Brjánsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Þegar þetta frumvarp barst okkur þá var það með töluvert miklum þrýstingi um að við ynnum það hratt. Síðan fór nú vindurinn dálítið mikið úr því og við fengum aukinn tíma til þess að fjalla um það. Við í öllu okkar starfi erum alltaf að tala um meðalhófi og að fara eins mildar leiðir í okkar starfi og við getum. Í ljósi þess að við erum stöðugt að bólusetja fleiri, hlutfallið hækkar alltaf af þeim sem ferðast með giska öruggum hætti, með vottorð, þá tel ég að þeir sem eru á faraldsfæti núna, það er a.m.k. trú okkar, séu tryggilega bólusettir og þessi tilvik sem myndu skapast við landamæri yrðu ekki ýkja mörg og að þetta harða eftirlit við byrðingu sé harkalegt inngrip. Okkar ráðgjafar voru á því að það væri hugsanlegt að þetta frumvarp væri óþarfi úr því sem komið væri, það væri búið að herða sóttvarnaákvæði það mikið að við réðum við aðstæður. En viðhorf ráðuneytanna er þetta: Að létta á álagi á landamærum því að við erum að horfa fram á stóraukna umferð ef að líkum lætur til Íslands og í því ljósi leggja ráðuneytin áherslu á að málið verði að veruleika. En ég held að þetta sé ofmetið.