151. löggjafarþing — 90. fundur,  5. maí 2021.

loftferðir.

613. mál
[19:36]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (P):

Herra forseti. Eins og fram hefur komið er ég áheyrnarfulltrúi Pírata í umhverfis- og samgöngunefnd og lýsi mig sem slíkur sammála nefndaráliti með breytingartillögu frá 1. minni hluta nefndarinnar. Ég get í raun vísað til efnislegrar umfjöllunar hv. þm. Hönnu Katrínar Friðriksson varðandi þau álitaefni sem eru fyrir hendi en hún fór ágætlega yfir þetta. Þar sem ég er bara aumur áheyrnarfulltrúi nýt ég þeirra forréttinda að geta líka lýst mig fylgjandi því sem fram kemur í nefndaráliti 2. minni hluta. Það ótrúlega gerðist að frumvarp sem var borið fram af öllum föstum fulltrúum í umhverfis- og samgöngunefnd í mars breyttist þannig í meðhöndlun nefndarinnar að hluti hennar neitaði að hlusta á varnaðarorð sérfræðinga og stendur að meirihlutaáliti. Hinn hlutinn klauf sig frá málinu sem hann sjálfur lagði fram fyrir tveimur mánuðum. Það gerir fólk ekkert að gamni sínu. Ég hvet fólk því til að líta á nefndarálit fulltrúa Miðflokksins, Viðreisnar og Samfylkingar, sem við í Pírötum styðjum, með þeim augum að þetta eru nefndarálit fólks sem lagði frumvarpið fram en mælir nú gegn ákveðnum þáttum í því eftir að hafa skoðað það betur. Ég vísa þá kannski til nefndarálita varðandi yfirferð yfir málið og álitaefnin.

Ég verð að byrja á að tala aðeins um hvað það er almennt slæmt þegar nefndir taka að sér flutning á flóknum og viðamiklum þingmálum. Þegar nefndir sameinast um að flytja mál þykir mér eðlilegt að það séu mál sem snúa kannski að því að framlengja tímafresti, að bregðast við einhverjum lagfæringum sem þurfa að eiga sér stað hratt eða, eins og við höfum kannski upplifað óþarflega oft undanfarið, að bregðast við krísuástandi í samfélaginu. Hins vegar höfum við á síðustu misserum líka séð að ráðherrar geta alveg komið með krísumálin til þingsins og fengið þau kláruð mjög hratt. Þess vegna held ég að miklu betra hefði verið að ráðherra mælti fyrir þessu frumvarpi. Ég er ekki búinn að lúslesa alla 1. umr. málsins en ég held að það hafi í fyrsta sinn komið fram við 2. umr. málsins núna í dag að málið er frá samgönguráðuneytinu. Nokkrir fulltrúar í umhverfis- og samgöngunefnd sögðu hér að þetta mál kæmi frá ráðuneytinu sem bæði nefndina um að flytja það. Þá er nú bara einfaldara að ráðherrann geri það sjálfur til að allt sé fyrir opnum tjöldum, til að þetta sé ekki falið inni í nefndarstarfi og borið fram með frumvarpi sem er sagt vera í nafni nefndarinnar — og er það, en innvolsið allt fengið lóðbeint frá ráðuneytinu.

Svo er málið enn flóknara vegna þess að nefndin hefur þurft að ræða við þrjú eða fjögur ráðuneyti varðandi ólík álitamál í frumvarpinu. Þó að samgönguráðuneytið sé það ráðuneyti sem kemur til með að framkvæma lögin er það heilbrigðisráðuneytið sem er vísað til sem úrskurðaraðila um það hvort enn sé nauðsyn á þessum aðgerðum sóttvarnalega séð. Hvort ráðuneytið ber þá ábyrgð? Eða er þingið sjálft bara búið að leysa ráðuneytin undan því að bera ábyrgð á mögulegum stjórnarskrárbrotum? Er þingið að fría ráðherrann ábyrgð með því að þingnefnd beri þetta fram? Var leikurinn kannski til þess gerður?

Svo verð ég að viðurkenna, herra forseti, að það kom mér á óvart að þessu máli væri haldið til streitu eftir hraðsoðnar breytingar á sóttvarnalögum fyrir tveimur vikum. Þær breytingar snerust um að þétta landamærin, snerust um að tryggja sóttvarnir í kringum fólk sem kemur til landsins, snerust um að ná öllum þeim markmiðum sem þetta frumvarp átti að ná þegar það kom fram í mars. Í millitíðinni hélt ég að ráðuneytin hefðu svo dottið niður á betri lausn og þess vegna gæti frumvarpið bara farið í norður- og niðurfallið en það er öðru nær. Stjórnarliðar héldu fast í að keyra málið áfram og vildu ekki heyra á það minnst að umhverfis- og samgöngunefnd myndi bara slátra því sem óþarfa og vildu ekki heldur heyra á það minnst að við tækjum tillit til sjónarmiða varðandi álitamál sem snerta stjórnarskrá. En álitamálið er nefnilega svo einfalt, það snýst bara um það að stjórnvöld mega ekki setja heimferðabann á íslenska ríkisborgara. Ef stjórnvöld gera það, ef þau setja lög sem jafngilda því að neita eigin ríkisborgurum um landgöngu, eru þau ekki bara að brjóta stjórnarskrá heldur líka mannréttindasáttmála vegna þess að réttur ríkisborgara til að komast til síns heima er hornsteinn alþjóðakerfisins, hornsteinn fullvalda ríkja. Ríki er ekki fullvalda ef þar er ekkert fólk. Þess vegna er 66. gr. stjórnarskrárinnar eitt af lykilatriðunum í stjórnarskránni okkar. Hún tryggir rétt okkar allra til að vera í landinu og komast heim og án okkar væri þetta land ekki til.

Þess vegna verð ég, herra forseti, að ræða orðfæri talsmanns stjórnarliða í þessu máli sem sagði í andsvari við hv. þm. Jón Þór Ólafsson að ekki væri hægt að skylda flugrekanda til að flytja smitaðan Íslending til landsins. Ekki er hægt að skylda flugrekenda til að flytja smitaðan Íslending til landsins og setja þá mögulega heila flugvél í hættu, ekki frekar en hægt er að skylda flugrekanda til að flytja drukkinn Íslending milli landa. Vandinn við þetta er að enginn er að segja að við ætlum að skylda flugrekendur til eins eða neins, nema stjórnarliðar sem vilja skylda flugrekendur til að meina íslenskum ríkisborgurum að koma heim. Breytingartillaga minni hlutanna snýst um að sett verði í hendur flugrekendanna sjálfra að meta út frá sínum hagsmunum og flugöryggi hvort ástæða sé til að meina fólki að ganga um borð í flugvél. Útúrsnúningur hv. þm. Ara Trausta Guðmundssonar væri ekki slæmur ef ekki væri fyrir þá staðreynd að margoft er búið að benda á að þetta er della. Það hefur t.d. komið fram í breytingartillögum sem umhverfis- og samgöngunefnd fékk frá ráðuneytinu. Málið hefur verið að velkjast í kerfinu í allar þessar vikur og álitamálið varðandi heimkomubannið er svo alltumlykjandi að við höfum fengið frá ráðuneytinu tillögur að því hvernig hægt sé að ná utan um stjórnarskrárbrotsvandann. Efnislega eru þær samhljóða því sem 1. minni hluti leggur hér til.

Í greinargerðinni sem kom frá ráðuneytinu með þessari tillögu 22. mars, með leyfi forseta, segir að:

„…sú skylda sem hvílir á flugrekanda/umráðanda loftfars til að synja farþega um flutning sé ekki fortakslaus gagnvart íslenskum ríkisborgurum þrátt fyrir að skilyrði a-liðar 1. mgr. sé ekki fullnægt. Í þessu samhengi er rétt að árétta að samkvæmt 4. mgr. 42. gr. laga um loftferðir [...] er flugstjóra, sem fer með æðsta vald í loftfari, heimilt þegar nauðsyn ber til, að synja viðtöku í loftfar eða vísa úr því flugverjum, farþegum eða varningi og farangri. Er almennt talið viðurkennt að slík nauðsyn geti m.a. tekið til þess að til þess að varna útbreiðslu farsóttar.“

Þann 22. mars fékk nefndarfólk í hendurnar þennan texta sem sýnir að allt tal um skyldu flugrekenda til að flytja smitað fólk er úr lausu lofti gripið. Ég ætla því að biðja fólk um að ræða það ekki meir. En vandinn er að það er svo óljóst hvaða hagsmuni frumvarpið á að verja núna þegar búið er að breyta sóttvarnalögum þannig að landamærin séu þéttari. Einu hagsmunirnir sem ég sé núna eru hagkvæmnissjónarmið, að það sé ódýrara og einfaldara að láta fólk bara vera úti í löndum frekar en að fá það til Íslands og þurfa að hýsa það í sóttvarnahúsi.

Herra forseti. Það er bara ekki nógu góð ástæða til að brjóta réttindi fólks. Það kostar að virða mannréttindi, það bara kostar og það er ekkert að því. Kostnaðurinn við að brjóta mannréttindi er siðferðilega miklu hærri, að ekki sé talað um þann fjárhagslega kostnað sem getur hlotist af því, eins og kemur fram í umfjöllun 2. minni hluta umhverfis- og samgöngunefndar. Ef íslenska ríkið skyldar einkaaðila fyrir hönd ríkisins til að brjóta mannréttindi á íslenskum ríkisborgurum, eins og stjórnarliðar leggja til að geti gerst, er íslenska ríkið skaðabótaskylt. Þetta frumvarp er aðeins nauðsynlegt ef fólki finnst það ekki bara þurfa að vera með beltið og axlaböndin sem eru þegar komin heldur líka einhvern veginn að vefja sig í sellófan. Þetta er bara óþarfi.

Varðandi óvissu með samræmi við stjórnarskrá sagði talsmaður stjórnarliða í umræðunni áðan að fjölmörg ákvæði væru í stjórnarskránni sem mætti túlka á ýmsa vegu. Já, stjórnarskráin er meingölluð hvað þetta varðar, hún er rosalega óljós, mörg ákvæði sem enginn skilur almennilega og er hægt að túlka í allar áttir. Þess vegna viljum við í Pírötum nýja stjórnarskrá, því að hún er skrifuð á mannamáli, hún er skýrari og hún er betri. En veistu hvað, forseti? 66. gr. gildandi stjórnarskrár er bara „kópípeistuð“ í tillögum stjórnlagaráðs. Hún er afrituð lóðbeint úr gildandi stjórnarskrá inn í tillögur stjórnlagaráðs vegna þess að hún er skýr. Það er ekki til mikið skýrara stjórnarskrárákvæði en það að íslenskum ríkisborgara verði ekki meinað að koma til landsins né verði honum vísað úr landi. Það skilur hvert mannsbarn. Þess vegna finnst mér dálítið fyndið að meiri hlutinn hafi í nefndaráliti sínu meiri áhyggjur af mismununarákvæði stjórnarskrárinnar. Þar segir fólk allt í einu að ekki séu málefnaleg rök til að mismuna farþegum á grundvelli ríkisfangs með tilliti til frumvarpsins. Það er sem sagt talað gegn tillögu okkar í minni hlutanum um að undanskilja íslenska ríkisborgara vegna þess að þá sé verið að mismuna fólki. Þetta segir sama fólkið og er til í að brjóta 66. gr. eða alla vega láta reyna á það. Vandinn er að við spurðum einmitt sérfræðinga sem komu fyrir umhverfis- og samgöngunefnd út í það hvort þeir hefðu áhyggjur af mismunun ef við settum svona breytingu inn í frumvarpið. Þetta fólk — sem allt setti b-liðinn, heimkomubannið, á gráa svæðið gagnvart stjórnarskrá, misgrátt vissulega — allir sem við spurðum um þetta sögðu: Við höfum engar áhyggjur af því að mismuna fólki á grundvelli ríkisfangs þegar málefnalegar ástæður eru jafn ríkar og skýrar og í þessu tilviki. En þetta dregur meiri hlutinn upp sem eitthvert „réttlætiselement“.

Svo hefur verið komið inn á óvissuna varðandi nauðsyn þessa. Ég nefndi hér áðan að það væru væntanlega einhver hagkvæmnissjónarmið hjá ráðuneytinu að útvista vandanum til landa þar sem fólk er statt frekar en að þurfa að halda fólki í fæði og húsnæði í nokkra daga. En hvað gerist ef breytingartillaga minni hlutans er samþykkt og bann við inngöngu í flugvél er aðeins skylda gagnvart fólki sem ekki er með íslenskri ríkisfang? Hvað gerist? Þá stöndum við frammi fyrir þeim möguleika að flugfélög setja sér þær reglur að slíkt fólk megi ekki koma um borð í vélarnar. Í þeim drögum að nefndaráliti sem við fengum frá ráðuneytinu einhvern tíma fyrr í ferlinu kom einmitt fram að þetta væri væntanlega ekki einu sinni skaðabótaskylt vegna þess að það væru bara ríkar ástæður fyrir þessu varðandi flugöryggi.

Flugfélög geta sem sagt meinað fólki heimferð — geta, það er munurinn, að geta frekar en að vera skylt að gera það af hendi ríkisins. Þau geta meinað fólki heimferð eða fólk kemst einhvern veginn heim og er sett í sóttkví. Þar eru lögin orðin skýr, framkvæmdin orðin nokkuð lipur. Praktískt séð er því ekkert sem kallar á þetta frumvarp lengur. Það sem ég velti fyrir mér er hvort frumvarpið endurspegli kannski einhvern farsóttardoða í stjórnarliðum, að þar á bæ sé fólk farið að vinna á einhverri sjálfvirkni, sætta sig við nánast hvað sem er sem kemur frá ráðherrunum. Ef sagt er að það sé nauðsynlegt er því bara tekið sem gefnum hlut á meðan minnihlutaálitin endurspegla að enn er þó drjúgur hluti þingheims tilbúinn til að rýna ofan í kjölinn þær tillögur sem koma fram.

Þetta er bara svo slæm staða, herra forseti. Það er svo slæm staða að stjórnarliðar standi að samþykkt frumvarps þar sem er sagt fullum fetum að fólk viti bara ekki hvort þetta standist stjórnarskrá en vilji taka sénsinn á því. Það er ekkert dómafordæmi og til að gera dómstólunum erfiðara fyrir eru nánast engar skriflegar umsagnir eða almennileg umfjöllun í þessu máli ef á það skyldi reyna fyrir dómstólum. Hæstiréttur þarf því að ráða í þoku ef hann ætlar að túlka vilja þingsins. Þetta er það vafasamt mál að meira að segja fulltrúi stjórnarliða virðist frekar reikna með því að málið fari fyrir Hæstarétt. Ég velti fyrir mér: Ef ráðherra talaði svoleiðis varðandi álitamál gagnvart stjórnarskrá, hvort myndi það, herra forseti, teljast ásetningur eða stórkostlegt hirðuleysi um að brjóta í bága við stjórnarskrá?