151. löggjafarþing — 90. fundur,  5. maí 2021.

loftferðir.

613. mál
[19:57]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P) (andsvar):

Forseti. Ég kom inn fyrir Pírata á einum fundi nefndarinnar en hv. þm. Andrés Ingi Jónsson hefur setið þar mestmegnis í málinu. Í janúar var sett á skylda um að skila PCR-vottorði, þ.e. að maður hafi verið skimaður innan við 72 klukkustundum fyrir brottför. Sú skylda var sett í sóttvarnareglur. Ég skoðaði það, við skoðuðum stjórnarskrána og það var heimilt að gera það. Stjórnvöld höfðu prófað sig áfram með 14 daga sóttkví og svo mátti sleppa við hana með því að fara í skimun, fimm daga sóttkví og skimun og borga fyrir það. Nei, það virkaði ekki. Þá mátti sleppa því að borga fyrir það. Nei, það virkaði ekki. Þá var sett á skylda. Það virkaði ekki þannig að þeir settu á þessa skyldu á ytri landamærum, þ.e. á brottfararstað, að skila PCR-vottorði á brottfararstað. Við skoðuðum það og já, það var málefnalegt, þar var gætt meðalhófs. Það var næsta skref af því að hitt virkaði ekki.

Hefur nefndin þá fengið upplýsingar um hve margir íslenskir ríkisborgarar hafa sagt: Nei, við skilum þessu ekki neitt? Er það raunverulegt vandamál að íslenskir ríkisborgarar segi: Nei, ég vil bara fara um borð? Það er það sem þetta ákvæði á að gera, að íslenskum ríkisborgurum verði bannað að koma til landsins þvert á það sem stjórnarskráin segir að séu grundvallarréttindi þeirra, að það megi ekki meina þeim að koma til landsins, vegna þess að þeir skili ekki þessu PCR-vottorði. Er það raunverulegt vandamál? Hefur það komið fram fyrir nefndinni? Ef þetta er ekki raunverulegt vandamál og ef menn skilja ekki hve stórt vandamálið er sem á að leysa með því að takmarka og mögulega brjóta þessi stjórnarskrárvörðu réttindi, þá eru menn bara ekki að sinna sínum lögbundnu og stjórnarskrárbundnu skyldum við að halda stjórnarskrána. Hefur það komið fram fyrir nefndinni hvað þetta eru margir Íslendingar, íslenskir ríkisborgarar, í dag sem segja nei og skila ekki vottorði, frá því í janúar þegar sett var á skyldan um PCR-vottorð á brottfararstað? Það er grundvallaratriði í þessu máli.