151. löggjafarþing — 91. fundur,  6. maí 2021.

kostnaður við móttöku hælisleitenda.

[13:04]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M):

Forseti. Telur hæstv. fjármálaráðherra eðlilegt að lagt sé fram frumvarp sem er til þess fallið að auka verulega útgjöld án þess að nokkur tilraun sé gerð til að meta kostnaðinn til framtíðar? Ég er hér að vísa til frumvarps sem miðar að því að veita hælisleitendum, sem fá hér hæli eða dvalarleyfi, sömu þjónustu og miklu minni hópi, þ.e. kvótaflóttamönnum. Fram til þessa hafa þeir notið hér talsverða réttinda enda Íslendingar lagt metnað sinn í að taka vel á móti þeim sem hingað er boðið. Telur hæstv. ráðherra að slík stefnumörkun muni ekki hafa áhrif til að fjölga umsóknum umfram það sem ella hefði verið, fyrir utan þann viðbótarkostnað sem hlýst af því að ríkið veiti mun stærri hópi þessa sömu þjónustu en áður?

Sérstaklega er þetta áhugaverð spurning, finnst mér, til hæstv. ráðherra í ljósi þess að með málinu er ríkisstjórnin í raun að fara í þveröfuga átt miðað við stjórnvöld annars staðar á Norðurlöndum. Það ætti þá að ýta enn frekar undir fjölgunina hér. Eins og hæstv. ráðherra veit kannski eru umsóknir um hæli hlutfallslega sexfalt fleiri á Íslandi en í Danmörku og Noregi. Forsætisráðherra Danmerkur hefur sagt að þar sé markmiðið með nýrri stefnu stjórnvalda að enginn komi til Danmerkur til að sækja um hæli. Danir vilja hafa stjórn á því hverjum er boðið til landsins, beina fólki í örugga lögmæta farveginn og taka svo á móti fólki sem kvótaflóttamönnum en stefnan sé að enginn sæki um hæli.

Telur hæstv. forsætisráðherra ekki að þetta muni hafa talsverð áhrif hér?