151. löggjafarþing — 91. fundur,  6. maí 2021.

kostnaður við móttöku hælisleitenda.

[13:06]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég tel að það hljóti að vera eitt af stóru verkefnunum við að fara yfir þetta mál einmitt að leggja mat á það sem hv. þingmaður nefnir hér sem eru, mig langar til að segja, hvatar til að sækja um hæli á einum stað umfram annan. Ég veit ekki hvort það er raunhæf stefna hjá Dönum og forsætisráðherra Dana að stefna að því að enginn sæki um. Ég átta mig ekki alveg á því hvað býr þar að baki. Ég hélt að þjóðir heims og hér í okkar heimshluta væru sammála um að við vildum samræma regluverk okkar sem mest og vera með mannúðlega stefnu sem gengur út á það að bjóða fólki inn í samfélagið sem kemur frá stríðshrjáðum svæðum, getur ekki snúið til baka, er á flótta undan einhverjum hörmungum, og að bregðast við.

Það sem mér finnst að hafi kannski brugðist í okkar tiltekna tilfelli er að við höfum setið uppi með allt of langan málsmeðferðartíma hjá allt of mörgu fólki sem út af fyrir sig er ákveðið mannréttindabrot. Það að fá svar er það sem fólk er fyrst og fremst að búast við og hefur væntingar um. Við höfum dálítið brugðist í því að innleiða hér á landi málsmeðferðartíma og málsmeðferðarreglur sem rísa undir þeim kröfum sem við gerum að öðru leyti í þessu kerfi okkar. Að sjálfsögðu getur það haft áhrif. Það getur haft röng áhrif á þessa hvata sem mér finnst hv. þingmaður koma inn á. Og já, ég er sammála því að við getum misst stjórn á kostnaði og það getur dregið úr getu okkar til þess að sinna málaflokknum eins og yfirlýsingar (Forseti hringir.) hafa staðið til um, þar á meðal að taka vel á móti kvótaflóttafólki og hjálpa því að aðlagast samfélaginu.