151. löggjafarþing — 91. fundur,  6. maí 2021.

völd og áhrif útgerðarfyrirtækja.

[13:11]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Herra forseti. Öll viljum við hafa hér góð og stöndug fyrirtæki sem greiða góð laun og stuðla að heilbrigðum vinnumarkaði, sem greiða skatta og gjöld og sinn sanngjarna hlut til samfélagsins. Sem betur fer eigum við mörg slík hér á landi og meðal þeirra eru útgerðarfyrirtæki. En deilur hafa staðið um fiskveiðistjórnarkerfið í langan tíma og um hvernig auðlindarentunni af auðlind þjóðarinnar er skipt. Auðlindarentan af fiskveiðiauðlindinni hefur runnið nær óskipt í vasa útgerðarmanna og fært þeim auð og völd. Mikil samþjöppun hefur átt sér stað í sjávarútvegi á undanförnum áratugum. Tíu stærstu útgerðirnar fara með meira en helming kvótans og 20 stærstu með meira en 70% kvótans. Ofan á þetta bætist svo eignarhald þessara útgerðarisa í öðrum útgerðum. Eitt þessara fyrirtækja er Samherji sem hefur verið í umræðunni hér heima og erlendis vegna meintra skattsvika, peningaþvættis og mútugreiðslna. Eva Joly heldur því fram í viðtali við þýskan rannsóknarblaðamann að ekki sé mikill vilji til þess að rannsaka mál Samherja á Íslandi vegna þeirra valda sem Samherji hefur. Samherji sé valdamikill á Íslandi, þeir eigi valdamikla vini og það vilji enginn fá stóra rannsókn á málinu.

Ég vil biðja hæstv. ráðherra um viðbrögð við þessum orðum Evu Joly og spyrja hvort hann geti tekið undir það að yfirráð fárra yfir fiskveiðiauðlindinni, líkt og raunin er hér á landi, færi útgerðarisum meiri auð og völd en heilbrigt gæti talist og of sterka stöðu gagnvart stjórnvöldum.