151. löggjafarþing — 91. fundur,  6. maí 2021.

völd og áhrif útgerðarfyrirtækja.

[13:17]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Það sem við gerum þegar upp koma ásakanir um lögbrot er að rannsaka. Ég ætla ekki að láta draga mig inn í umræðu um meint brot, einhverjar vangaveltur um það hvort ásakanir um brot sem kannski var framið muni mögulega skaða orðspor annarra fyrirtækja. Ég held ekki. Getur hv. þingmaður séð fyrir sér að þetta fyrirtæki sem er með starfsemi í Frakklandi, Þýskalandi, um allan heim, sé að valda því að þýsk fyrirtæki almennt séu bara að lenda í orðsporsvanda? Ég held ekki. Það eru þýsk og frönsk fyrirtæki sem er í eigu þessa sama félags og hv. þingmaður setur hér á dagskrá, sem varla veldur verulegri orðsporsáhættu. Ég hef aldrei fengið símtal, ábendingu, umkvörtun frá nokkrum einasta aðila sem heldur því fram við mig að ásakanir um lögbrot í þessu máli séu að valda einhverjum verulegum vandræðum fyrir íslenskan útflutning eða á markaði annars staðar.

Það sem við eigum að gera er að taka ábendingum um þessa hluti alvarlega. Við eigum að rannsaka þá og komast til botns í þeim. Við höfum ágætissögu að segja í því efni eftir hrunið, sem hv. þingmaður er dálítið fastur í og minntist á í ræðu sinni, (Forseti hringir.) með þeim skýrslum sem voru gefnar út, með því uppgjöri sem þar fór fram, með þeim rannsóknum sem farið var í og þeim dómum sem síðan féllu.