151. löggjafarþing — 91. fundur,  6. maí 2021.

viðbragðsáætlun vegna gróðurelda.

[13:19]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegur forseti. Fyrr í vikunni kviknaði sinubruni í Heiðmörk og dreifðist með ógnarhraða á örskotsstundu. Þökk sé hröðum viðbrögðum og hörkudugnaði helstu viðbragðsaðila þá tókst að halda eldinum í skefjum og eftir margra tíma baráttu náðist loks að slökkva hann. Alls urðu 2 km² eldinum að bráð og litlu munaði að eldurinn næði í vatnsból á Vatnsendakrikanum. Hætta á gróðureldum fer vaxandi og hefur sennilega aldrei verið meiri hér á landi en nú. Aðeins nokkrum dögum fyrir brunann í Heiðmörk þurfti að kalla út slökkviliðið vegna sinubruna í Mosfellsbæ og síðsumars geisaði eldur í Norðurárdal. Það er nauðsynlegt að stjórnvöld séu í stakk búin til að takast á við vandann og að viðbragðsaðilar hafi tæki og búnað. Á vef almannavarna er að finna eina viðbragðsáætlun vegna gróðurelda. Sú áætlun er frá 2017 og fjallar sérstaklega um viðbrögð við því ef gróðureldar kvikna í Skorradal.

Telur ráðherra þörf á sérstakri viðbragðsáætlun almannavarna vegna gróðurelda á höfuðborgarsvæðinu og mögulega landsáætlun um viðbrögð við gróðureldum? Munu ráðherra eða æðstu yfirmenn almannavarna og fulltrúar almannavarna í öryggisráði beita sér fyrir því að slíkar viðbragðsáætlanir verði gerðar? Þyrla Landhelgisgæslunnar aðstoðaði við slökkvistarf í Heiðmörk fyrr í vikunni sem betur fer. Slökkviskjóla var hengd í þyrluna og vatn sótt í Hvaleyrarvatn og síðan dreift yfir eldinn. Getur ráðherra upplýst mig um hve mörgum þyrlum Landhelgisgæslan hefur yfir að ráða og hve margar þyrlur er hægt að nýta til að slökkva elda á sama tíma? Eru til nógu margar slökkviskjólur til að halda úti fleiri en einni þyrlu í einu við slík störf? Mun ráðherra beita sér fyrir því að tryggja að Landhelgisgæslan hafi búnað sem til þarf til að aðstoða slökkviliðið við slíkt starf? Í þessu samhengi má benda á að þessi eina slökkviskjóla bilaði. Ég spyr ráðherra hvað í ósköpunum hefði gerst ef eldar hefðu kviknað á fleiri en einum stað og við bara með eina hálfbilaða slökkviskjólu? Er ekki kominn tími til að taka á því?