151. löggjafarþing — 91. fundur,  6. maí 2021.

viðbragðsáætlun vegna gróðurelda.

[13:24]
Horfa

dómsmálaráðherra (Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir) (S):

Virðulegur forseti. Það er rétt hjá hv. þingmanni að þetta þarf að vera í lagi. Við tökum það alvarlega. Hv. þingmaður nefndi hættuna varðandi Skorradalinn og þar held ég að við séum vel undirbúin undir slíka viðbragðsáætlun. Það þarf alltaf að athuga hvort við getum gert betur og styrkt almannavarnirnar sem við höfum verið að gera. Við höfum eflt deild ríkislögreglustjóra, gert nýja almannavarnastefnu, breytt lögum í takt við stöðuna og gert skýra áætlun um hvað gera þurfi í framhaldi af því, í nýrri almannavarnastefnu sem birt var fyrir örfáum vikum og var nýlega samþykkt af almannavarna- og öryggisráði. Ríkislögreglustjóri, í samvinnu við stjórn samhæfingar- og stjórnstöðvar, í samvinnu um alla þess hluti, hefur líka gefið út handbók með verklagsreglum og skipulagi til að virkja vegna gróðurelda og slík hætta er inni í skilgreiningum á aðalhættu vegna óveðurs, heimsfaraldurs, hópslysa, eldgosa, jarðskjálfta, gróðurelda og sjóslysa. Þar er talað um gróðurelda. Það er tryggt að það séu sérstakar viðbragðsáætlanir. Ég mun auðvitað gera allt sem í mínu valdi stendur til að skera úr um að þetta verði í lagi (Forseti hringir.) enda er það alveg rétt, sem hv. þingmaður segir, það er hætta á þessu eins og hinum ýmsu áföllum sem við höfum séð síðastliðna mánuði.