151. löggjafarþing — 91. fundur,  6. maí 2021.

heimildir lögreglu til stöðvunar mótmæla.

[13:28]
Horfa

dómsmálaráðherra (Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir) (S):

Virðulegi forseti. Ég tek auðvitað undir með hv. þingmanni, það þarf að vernda tjáningarfrelsið og rétturinn til að mótmæla er skýr og er tryggður borgurum þessa samfélags. Lögreglan á auðvitað að gæta jafnræðis og beita sömu viðmiðum, sama hver á í hlut, í störfum sínum. Á sama tíma verða mótmælendur að fylgja fyrirmælum lögreglu. Það er síðan dómstóll sem kemst að ákveðinni niðurstöðu, sem hv. þingmaður vísar í, og þannig er kerfið okkar uppbyggt. Dómstólar skera úr um það hvort lögregla gengur of hart fram. Einnig erum við að efla eftirlitsnefnd með störfum lögreglu í máli sem er hér á lokametrunum í þinginu.

Ég er auðvitað ekki í neinni stöðu til að endurmeta niðurstöðu dómstóla. Það eru skýr stjórnarskrárvarin réttindi fólks að nýta tjáningarfrelsi sitt og það hefur réttinn til að mótmæla og á sama tíma verður lögreglan að gæta jafnræðis og beita sömu viðmiðum gagnvart öllum borgurum.