151. löggjafarþing — 91. fundur,  6. maí 2021.

heimildir lögreglu til stöðvunar mótmæla.

[13:30]
Horfa

Olga Margrét Cilia (P):

Forseti. Það er augljóst að ég og hæstv. dómsmálaráðherra erum sammála um mikilvægi réttarins til að mótmæla. En ég var ekki að spyrja hvað hæstv. dómsmálaráðherra þætti um niðurstöðu héraðsdóms eða biðja um mat á því. Ég var að spyrja hvort það væri réttlætanlegt að eins matskennd regla og 19. gr. lögreglulaga sé notuð til þess að leysa upp mótmæli. 19. gr. kveður á um skyldu borgara til að hlýða lögreglu og er frekar opið ákvæði. Í greinargerð í frumvarpi til lögreglulaga segir að það sé verið að leiða í lög skyldu borgara til að hlýða fyrirmælum lögreglunnar. Í greinargerðinni kemur ekkert fram um það hvernig mat lögreglu á framfylgd ákvæðisins eigi að fara fram. Og þar sem þessi lagagrein hefur verið notuð til þess að leysa upp mótmæli þá ítreka ég spurningu mína hvort það sé réttlætanlegt að eins matskennd regla og 19. gr. er sé notuð til þess að leysa upp mótmæli. Þess vegna spurði ég einnig hvernig fræðslu til lögreglumanna væri háttað varðandi beitingu reglunnar. Er þetta bara persónulegt mat lögreglunnar hverju sinni hvernig eigi að beita henni eða eru einhver almenn skilaboð sem fara til lögreglunnar um hvernig eigi að tryggja að þessari reglu sé beitt á réttmætan hátt? Í síðasta lagi: Er eitthvert eftirlit með því hvernig þessari mjög svo matskenndu reglu er beitt þegar verið er að takmarka réttindi borgara? Eru einhverjir ferlar til endurskoðunar (Forseti hringir.) þar sem hægt er að endurskoða eða fræða lögreglufólk um hvernig þetta mat eigi að fara fram?