151. löggjafarþing — 91. fundur,  6. maí 2021.

heimildir lögreglu til stöðvunar mótmæla.

[13:31]
Horfa

dómsmálaráðherra (Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir) (S):

Virðulegur forseti. Er réttlætanlegt að nota þetta ákvæði til að leysa upp mótmæli? Það er auðvitað lögreglan sem þarf að meta aðstæður hverju sinni sem geta verið ólíkar, hvaða hætta stafar af þeim og því um líkt. Það er lögreglunnar að gæta alltaf meðalhófs. Það er líka spurt um fræðsluna og það er sífellt verið að endurmennta lögreglumenn og bæta í fræðsluna á ólíkum sviðum samfélagsins. Ég þekki það kannski ekki varðandi þetta atriði sérstaklega en það hefur verið mikið kappsmál að gæta að endurmenntun lögreglunnar og fræðslu á ólíkum sviðum eins og varðandi fjölmenningarmál og fleira. Dómstólar endurskoða síðan þessar ákvarðanir lögreglunnar og þetta mótast auðvitað í framkvæmdinni með dómum þegar á reynir. En það er auðvitað mjög mikilvægt að jafnræðis sé gætt og þetta sé skoðað og að sjálfsögðu að lögreglumenn séu fræddir um störf sín þegar á reynir. Ég tel að lögreglan hafi oft gert afar vel (Forseti hringir.) en hún þarf auðvitað alltaf að gæta jafnræðis og meðalhófs í þessum málum eins og öðrum.