151. löggjafarþing — 91. fundur,  6. maí 2021.

staða einkarekinna fjölmiðla.

[13:32]
Horfa

Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir (V):

Virðulegi forseti. Mikilvægi fjölmiðla fyrir samfélagið er okkur öllum alveg ljóst en staða þeirra í dag er það líka. Seinagangur vegna erfiðrar stöðu einkarekinna fjölmiðla er þess vegna mjög alvarlegur. Vandinn er ekki nýr og hann ágerist. Hvers vegna er ég að nefna þetta núna þegar við erum á lokametrunum við að afgreiða mál sem snýst einmitt um stuðning við einkarekna fjölmiðla? Það geri ég vegna þess að þar er verið að setja mjög lítinn plástur á stórt blæðandi sár. Það er auðvitað eðlilegt að einkareknir fjölmiðlar fái stuðning við þær aðstæður sem nú eru á markaði. Samfélagið þarf á vönduðum og fjölbreyttum fjölmiðlum að halda og ég vil leyfa mér að segja að staða fjölmiðla sé mælikvarði á stöðu lýðræðis.

Rekstrarumhverfi einkarekinna fjölmiðla hefur breyst mikið undanfarin ár. Auglýsingamarkaður og staða alþjóðlegra risa á netinu leika lykilhlutverk þar. Síðan er RÚV auðvitað í ákveðinni yfirburðastöðu, verandi bæði á fjárframlögum og með miklar tekjur af auglýsingamarkaði. Vandaður, innlendur ríkisrekinn fjölmiðill er okkur mikilvægur, það er ekki spurning í mínum huga, en leikreglurnar geta ekki verið þær að einkareknir innlendir fjölmiðlar eigi sjálfkrafa erfitt uppdráttar vegna tilveru ríkisfjölmiðilsins. Frumvarp menntamálaráðherra núna tekur ekkert á þessari stöðu. Hið ósanngjarna samkeppnisumhverfi verður áfram til staðar. Það verður ekki dregið úr umsvifum RÚV á auglýsingamarkaði og það eru engar aðgerðir heldur til að mæta þeirri stöðu sem er uppi vegna hinna alþjóðlegu risa sem taka mikið til sín án þess að greiða sömu gjöld og skatta og innlendir aðilar gera.

Nú í febrúar var stofnuð sérstök nefnd þriggja stjórnarþingmanna til að ræða tvennt; stöðu RÚV og alþjóðlegu efnisveiturnar. Markmiðið þar hlýtur að hafa verið meira en kaffisamsæti og spjall um sættir í ríkisstjórninni, og ég spyr: Mun hæstv. menntamálaráðherra leggja fram einhverjar framtíðarlausnir um stöðu einkarekinna fjölmiðla til lengri tíma, eitthvað meira en þessa styrki núna, einhverjar tillögur sem gera þetta rekstrarumhverfi eðlilegt og heilbrigt?