151. löggjafarþing — 91. fundur,  6. maí 2021.

staða einkarekinna fjölmiðla.

[13:36]
Horfa

Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir (V):

Virðulegi forseti. Það er óskaplega lítið hald í svona orðum hæstv. menntamálaráðherra, að hún vilji sjá eitthvað, að hún styðji eitthvað og að hún hafi einhverjar skoðanir þegar hún hefur ekki lagt fram neinar slíkar breytingar alla sína ráðherratíð og er í dag að staðfesta að engar slíkar virðast vera í farteskinu heldur. Já, það er eðlilegt, og já, það er þarft að styðja fjölmiðla í ljósi grundvallarhlutverks þeirra núna og það þarf að horfa til þess að stuðningurinn komi að raunverulegu gagni og fari til þeirra miðla sem þurfa á honum að halda, fari ekki eingöngu eða að langmestu leyti til stærstu miðlana. Hér er heldur ekki verið, eins og hæstv. ráðherrar staðfesti, að taka á því að fjárhæðir streyma út. Já, íslenskir fjölmiðlar munu fá þessa styrki sem ráðherrann er að lofa hér og þingið mun eflaust allt styðja. En þetta er plástur á sár og blæðingin er ekki stöðvuð. Leikreglurnar á markaði verða eftir sem áður ósanngjarnar og sjálfur stuðningurinn við fjölmiðlana er það að einhverju leyti líka. Var það kannski tilgangurinn eftir allt saman?