151. löggjafarþing — 91. fundur,  6. maí 2021.

málefni innflytjenda.

452. mál
[13:43]
Horfa

Bergþór Ólason (M) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegur forseti. Það er ekki hægt að láta hjá líða, áður en gengið verður til atkvæða um þetta mál og það sent aftur til nefndar, að nefna það augljósa í því. Það er enginn ágreiningur um það hver viðbótarkostnaður Fjölmenningarseturs er af þessu máli, og þá vísa ég í orð hv. formanns velferðarnefndar, Helgu Völu Helgadóttur, rétt áðan. Ágreiningurinn felst í því hver hinn afleiddi kostnaður er. Það blasir við að það stenst enga skynsemisskoðun að heildarkostnaður af afleiddum áhrifum frumvarpsins sé 23,7 milljónir. Af hverju reiknuðu menn sig hreinlega ekki niður í krónur og aura? Nú gef ég mér að menn reyni að horfa til laga um opinber fjármál þegar kostnaðarmat sem þetta er lagt fram í frumvarpi og þetta tiltekna kostnaðarmat stenst enga skynsemisskoðun. Þess vegna erum við í Miðflokknum að óska eftir því að málið gangi til nefndar til að reynt verði að leggja eitthvert vitrænt mat á afleidd áhrif frumvarpsins.