151. löggjafarþing — 91. fundur,  6. maí 2021.

framkvæmd EES-samningsins.

764. mál
[14:00]
Horfa

utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegi forseti. Skýrslan sem ég hef lagt fyrir Alþingi um utanríkis- og alþjóðamál er sú síðasta þess efnis á yfirstandandi kjörtímabili. Þessi tími hefur einkennst af sviptingum, bæði í íslensku samfélagi og á alþjóðavettvangi, ekki síst undanfarið ár sem fordæmalaus heimsfaraldur hefur varpað skugga sínum yfir. Utanríkisþjónustan hefur lagað sig vel að þessum breyttu tímum, bæði hvað varðar einstök málefnasvið en líka með tilliti til rekstrar og skipulags. Ég er stoltur af þeim árangri sem við höfum náð við að styðja við íslenskt atvinnulíf og gæta hagsmuna borgaranna. Á tímum heimsfaraldursins höfum við umfram allt kappkostað að laga starfsemina að breyttum aðstæðum og til að mæta þörfum íslenskra fyrirtækja og borgara. Leiðarljósið í þeim efnum, eins og allar götur frá stofnun utanríkisþjónusta þjónustunnar í apríl 1940, hefur verið að standa vörð um hagsmuni lands og þjóðar á erlendum vettvangi. Breytt forgangsröðun og breyting sem gerð var í upphafi kjörtímabilsins hefur skipt sköpum um það hversu vel hefur tekist til í þeim þrengingum sem vonandi eru brátt að baki. Utanríkisþjónusta Íslands hefur gegnt og mun áfram gegna mikilvægu hlutverki fyrir íslensku þjóðina. Við erum okkar eigin gæfu smiðir. Það gætir enginn okkar hagsmuna ef við gerum það ekki sjálf.

Virðulegur forseti. Aukin áhersla á málefni norðurslóða hefur verið rauður þráður í íslenskri utanríkisstefnu á síðustu misserum. Ber þar fyrst að nefna að Ísland hefur gegnt formennsku í Norðurskautsráðinu undanfarin tvö ár. Ráðherrafundur, sem haldinn verður í Reykjavík síðar í mánuðinum, markar lok hennar en jafnframt ber hann upp á aldarfjórðungsafmæli Norðurskautsráðsins. Samkvæmt formennskuáætlun Íslands hefur áhersla verið lögð á þrjú meginsvið; málefni hafsins, loftslagsmál og endurnýjanlega orku og fólk og samfélög á norðurslóðum, auk þess að styrkja ráðið. Þótt farsóttin hafi vissulega sett strik í reikninginn hefur formennskuáætlun Íslands gengið afar vel. Vonir standa til að á ráðherrafundinum samþykki ráðherra aðildarríkjanna niðurstöðu verkefna sem unnin voru í formennskutíð Íslands og starfsáætlun ráðsins undir komandi formennsku Rússlands.

Samkvæmt stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar eru málefni norðurslóða í forgangi í íslenskri utanríkisstefnu enda snerta þau hagsmuni Íslands með margvíslegum hætti. Gildandi norðurslóðastefnu byggist á þingsályktun frá 2011. (Forseti hringir.)

(Forseti (SJS): Forseti vill spyrja hæstv. ráðherra hvort við séum ekki örugglega á sömu blaðsíðu varðandi það að tekið var fyrir 8. dagskrármálið, framkvæmd EES-samningsins, sú skýrsla sem að ég best veit var höfð, að ósk ráðherra, á undan hinni. Kann að vera að hæstv. ráðherra hafi verið kominn í 9. dagskrármálið?)

Virðulegi forseti. Ef þetta hefur verið ósk ráðherrans [Hlátur í þingsal.] þá fer hann bara eftir sínum óskum, en ég taldi að ég væri í allt öðru máli.

(Forseti (SJS): Við gerum gott úr þessu. Ráðherra yfirgefur ræðustólinn og kemur á nýjan leik með framsöguræðu fyrir 8. dagskrármálinu.)

Virðulegi forseti. Þá hef ég mál mitt og ætla að ræða hér um skýrslu um framkvæmd EES-samningsins, sem mér skilst að ég hafi beðið sérstaklega um að yrði tekið á undan hinu málinu. Ég mæli hér fyrir skýrslu um framkvæmd EES-samningsins sem lögð er fram í samræmi við reglur Alþingis um þinglega meðferð EES-mála, en samkvæmt. 9. gr. reglnanna skal utanríkisráðherra árlega leggja slíka skýrslu fyrir Alþingi. Umfjöllun um EES-samstarfið með sérstakri skýrslu Alþingis samræmist vel þeirri áherslu sem lögð hefur verið á rekstur samningsins á kjörtímabilinu. Í skýrslunni er haldið áfram þar sem frá var horfið í þeirri skýrslu sem ég lagði fram um EES-samninginn á síðasta löggjafarþingi og gerð grein fyrir framkvæmd samningsins á síðari hluta ársins 2019 og á árinu 2020. Þar sem nokkuð er liðið á árið 2021 er jafnframt gerð grein fyrir þróun sem átti sér stað á fyrstu mánuðum ársins þar sem þess þykir þurfa.

Óhjákvæmilega er fjallað nokkuð ítarlega um þá röskun sem Covid-19 faraldurinn hefur haft í för með sér á starfsemi ESB og rekstur EES-samningsins sem og ráðstafanir sem gripið hefur verið til á vettvangi EES-samstarfsins vegna faraldursins. Þannig er m.a. fjallað um ágreining EFTA-ríkjanna við ESB vegna reglna sem sambandið setti á síðasta ári um útflutningsleyfi vegna útflutnings á hlífðarbúnaði og nýverið vegna útflutnings á bóluefni.

Enda þótt samstarfið við ESB um viðbrögð við heimsfaraldrinum hafi almennt gengið mjög vel hafa einnig komið upp álitamál vegna ákvarðana sambandsins um að láta reglur þess um útflutningsleyfi ná til EFTA-ríkjanna innan EES vegna útflutnings hlífðarbúnaðar á síðasta ári, og nú nýverið vegna útflutnings bóluefna. Íslensk stjórnvöld hafa mótmælt þeim ákvörðunum harðlega og bent á að krafa um útflutningsleyfi brjóti gegn ákvæðum 12. gr. EES-samningsins. Jafnframt hefur verið bent á að Ísland taki fullan þátt í samstarfi ESB-ríkjanna um innkaup og dreifingu bóluefna. Reglugerðinni um útflutning á hlífðarbúnaði var breytt í kjölfar mótmæla frá EES EFTA-ríkjunum. Í látlausri herferð íslenskra stjórnvalda síðan í mars á þessu ári hefur mótmælum stjórnvalda vegna kröfunnar um útflutningsleyfi vegna bóluefna verið komið á framfæri beint við framkvæmdastjórn ESB sem og einstök aðildarríki sambandsins. Sjálfur hef ég komið mótmælum íslenskra stjórnvalda skýrt á framfæri við kollega mína á hinum Norðurlöndunum og í Eystrasaltsríkjunum. Forsætisráðherrar EES EFTA-ríkjanna rituðu einnig bréf til forseta framkvæmdastjórnar ESB um málið. Þá kallaði ráðuneytisstjóri utanríkisráðuneytisins sendiherra ESB-aðildarríkja á sinn fund þegar fréttist af málinu og hefur í kjölfarið fundað með háttsettum aðilum innan ESB og aðildarríkja þess um málið. Sendiráðið í Brussel kom einnig á framfæri mótmælum við utanríkisþjónustu ESB og framkvæmdastjórnina og málið var tekið upp á sérstökum aukafundi í sameiginlegu EES-nefndinni. Sendiráð Íslands í ESB-ríkjunum kom mótmælum á framfæri við stjórnvöld viðkomandi ríkja. Þann 30. apríl sl. átti ég fjarfund með Valdis Dombrovskis, viðskiptamálastjóra ESB, þar sem ég ítrekaði kröfu okkar. Við áttum hreinskiptin skoðanaskipti sem enduðu með því að hann sagðist hafa meðtekið afstöðu íslenskra stjórnvalda og hann myndi gera Ursulu von der Leyen, forseta framkvæmdastjórnarinnar, grein fyrir þeirri afstöðu. Þann 1. maí átti svo forsætisráðherra símafund um málið með Ursulu von der Leyen. Á þeim fundi sagðist Ursula von der Leyen hafa ákveðið að við endurskoðun reglna yrði Ísland skýrlega undanþegið kröfu um útflutningsleyfi.

Afraksturinn af þessari miklu herferð í þágu íslenskra hagsmuna er að í gær setti framkvæmdastjórn ESB reglugerð sem setur EES EFTA-ríkin aftur á listann yfir þau ríki sem eru undanþegin frá útflutningseftirlitskerfi fyrir bóluefni. Jafnframt er vísað með skýrum hætti í stöðu EES EFTA-ríkja sem þátttakenda á innri markaðnum. Ágreiningur við ESB um útflutningsleyfi er gott dæmi um mikilvægi þess að stöðugt þarf að standa vörð um hagsmuni Íslands um rekstur EES-samningsins.

Í skýrslunni er einnig gefið heildstætt yfirlit um framkvæmd samningsins á því tímabili sem skýrslan tekur til, þar með talið upptöku ESB-gerða í samninginn og innleiðingu þeirra hér á landi. Fram kemur að árangur hafi náðst við að draga úr svonefndum upptökuhalla og innleiðingarhlutfall Íslands helst áfram betra en það hefur verið lengst af gildistíma EES-samningsins þótt það sé ekki jafn gott og á árunum 2018 og 2019, m.a. vegna röskunar af völdum Covid-19.

Þá er í skýrslunni gerð ítarleg grein fyrir hagsmunagæslu Íslands í EES-starfinu sem hvílir að miklu leyti á sendiráðinu í Brussel. Fjallað er um markvisst endurbótastarf undanfarinna ára sem ætlað er að efla hagsmunagæsluna og bæta upplýsingagjöf. Þannig auðveldar EES-gagnagrunnurinn sérfræðingum að fylgjast með málum á undirbúningsstigi innan ESB. Hluti hans hefur verið gerður opinber sem liður í að auka upplýsingagjöf til Alþingis, hagsmunaaðila og almennings. Einnig hefur verið sett upp sérstök upplýsingaveita á ees.is þar sem safnað er saman helstu upplýsingum um framkvæmd samningsins og það sem efst er á baugi hverju sinni. Þá hefur þátttaka fagráðuneyta í starfi sendiráðsins í Brussel verið aukin, en gert er ráð fyrir að þau verði öll með fulltrúa í Brussel fyrir lok þessa árs.

Sérstakur forgangslisti í EES-málum leggur grunn að hagsmunagæslunni. Forgangslistinn er uppfærður reglulega og eru 22 mál á nýjum lista sem samþykktur var síðastliðið haust. Eitt brýnasta málið varðar samræmdar sóttvarnaaðgerðir vegna Covid-19, en af öðrum mikilvægum málum má nefna græna sáttmála ESB, stafræna starfsskrá sambandsins, orku- og loftslagsstefnu sambandsins til 2030 og tilskipun sambandsins um starfsemi innstæðutryggingakerfa, DGS III. Sérstök umfjöllun er í skýrslunni um hvert þessara mála.

Í skýrslunni er enn fremur fjallað um ýmis mál sem verið hafa ofarlega á baugi í tengslum við aðild Íslands að EES-samningnum. Í því sambandi má nefna skoðun Eftirlitsstofnunar EFTA á innleiðingu bókunar 35 við samninginn hér á landi í kjölfar breyttrar dómaframkvæmdar. Einnig er gerð grein fyrir viðræðum Íslands og ESB um mögulega endurskoðun á samningi um viðskipti með landbúnaðarvörur og um bættan markaðsaðgang fyrir sjávarafurðir. Ég hef lagt áherslu á að verulegt ójafnvægi sé í samningi okkar við ESB um viðskipti með landbúnaðarvörur og talsvert vanti upp á að íslenskar sjávarafurðir njóti fulls tollfrelsis við innflutning til ESB. Ég hef lagt ríka áherslu á að úr þessu verði bætt.

Þá er í skýrslunni gerð grein fyrir rekstri uppbyggingarsjóðs EES. Íslensk stjórnvöld hafa á yfirstandandi tímabili lagt sérstaka áherslu á verkefni á sviðum rannsókna, nýsköpunar, menntunar og menningar, orku- og umhverfismála, samfélagslegra umbóta og jafnréttismála. Aukin áhersla er nú lögð á tvíhliða verkefni með hverju viðtökuríkjanna, en það skapar tækifæri til að efla samskipti Íslands og viðkomandi ríkja.

Loks er í skýrslunni gerð grein fyrir þátttöku Íslands í samstarfsáætlunum ESB. Þátttaka okkar í samstarfsáætlunum hefur skapað grunn að víðtæku samstarfi íslenskra stofnana, fyrirtækja og einstaklinga við erlenda aðila og í skýrslunni er gerð grein fyrir þeirri þátttöku og undirbúningi vegna áframhaldandi þátttöku á tímabilinu 2021–2027.

Virðulegi forseti. Ávinningurinn af aðild að Evrópska efnahagssvæðinu felst m.a. í nánast óheftum aðgangi að innri markaði EES-svæðisins, þeirri staðreynd að íslensk fyrirtæki geta keppt á jafnréttisgrundvelli við evrópsk fyrirtæki, í niðurfellingu tolla og afnámi tæknilegra viðskiptahindrana, möguleikum Íslendinga til að búa og starfa hvar sem er á EES-svæðinu og víðtæku samstarfi á sviðum vísinda, menntunar og menningarmála með þátttöku í samstarfsáætlunum ESB. Oft er fullyrt að gjaldið fyrir þann ávinning sé ekki réttlætanlegt vegna þeirrar umfangsmiklu innleiðingar á löggjöf ESB sem samningurinn felur í sér. Í því sambandi verður hins vegar að ítreka að aðildin að EES-samningnum jafngildir engan veginn aðild að ESB hvað þetta varðar.

Í skýrslu utanríkisráðuneytisins, Gengið til góðs – skref í átt að bættri framkvæmd EES-samningsins, frá 2018 kom þannig fram að á árunum 1994–2016 tók Ísland upp einungis 13,4% þeirra gerða sem ESB samþykkti á sama tímabili. Í skýrslu starfshóps um EES-samstarfið frá 2019 kom jafnframt fram að einungis 16% laga sem Alþingi samþykkti á árunum 1992–2019 áttu beinan uppruna sinn í aðildinni að EES. Á sama tíma og Ísland nýtur verulegs ávinnings af aðildinni að EES-samningnum stöndum við utan Evrópusamstarfsins þar sem það hentar hagsmunum okkar, t.d. á sviði sjávarútvegs, landbúnaðar, skattamála og byggðastefnu. Jafnframt stöndum við utan tollabandalags sambandsins og getum því gert fríverslunarsamninga við þriðju ríki á okkar eigin forsendum. Einungis 10 af 34 köflum ESB-löggjafarinnar eru að fullu hluti af EES-samningnum og 13 kaflar standa alfarið fyrir utan hann. Við erum því einungis aðilar að Evrópusamstarfinu að því marki sem samrýmist hagsmunum okkar.

Virðulegi forseti. Í sáttmála ríkisstjórnarinnar er staðfest að eitt mikilvægasta hagsmunamál Íslands sé að sinna vel framkvæmd EES-samningsins. Auk þess er þar áréttað að hagsmunum Íslands sé best borgið utan ESB. Á þeim grundvelli hefur ýmsum endurbótum á framkvæmd samningsins verði hrundið í framkvæmd á kjörtímabilinu. Unnið hefur verið eftir markvissri aðgerðaáætlun sem byggist m.a. á tillögum stýrihóps um framkvæmd EES-samningsins frá 2015, tillögum í skýrslu stýrihóps utanríkisráðuneytisins um utanríkisþjónusta til framtíðar frá árinu 2017, auk fyrrnefndrar skýrslu, Gengið til góðs, og skýrslu starfshóps um EES-samstarfið. Á undanförnum árum hefur verið ráðist í mörg átaksverkefni til að bæta framkvæmd EES-samningsins og aukin áhersla verið lögð á virka hagsmunagæslu á fyrri stigum löggjafarferils ESB, m.a. með því að styrkja aðkomu fagráðuneyta og að skilgreina hvaða mál varði íslenska hagsmuni sérstaklega.

EES-samstarfið stendur traustum fótum og ávinningur Íslands af þátttöku í samstarfinu er mikill og ótvíræður. Af hálfu stjórnvalda verður áfram unnið á þeirri braut sem mörkuð hefur verið að bæta framkvæmd samningsins sem mest og tryggja sem best hagsmuni Íslands í samstarfinu.