151. löggjafarþing — 91. fundur,  6. maí 2021.

framkvæmd EES-samningsins.

764. mál
[14:16]
Horfa

utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir fyrirspurnina. Í skýrslunni er gerð ítarleg grein fyrir málinu. Þar kemur m.a. fram að samkvæmt bókuninni ber EFTA-ríkjunum að tryggja forgangsáhrif EES-reglna sem leiddar hafa verið í landsrétt gagnvart öðrum innlendum reglum. Hér á landi var þessi skuldbinding innleidd í 3. gr. laga nr. 2/1993, um Evrópska efnahagssvæðið, en samkvæmt ákvæðinu skal skýra lög og reglur til samræmis við EES-samninginn og þær reglur sem á honum byggja. Þegar EES-samningur var lögfestur var það álit íslenskra stjórnvalda og Alþingis að þetta væri fullnægjandi innleiðing á skuldbindingum Íslands samkvæmt bókuninni. ESA telur hins vegar ljóst í ljósi þróunar dómaframkvæmda hér á landi á síðustu árum að þessi innleiðing tryggi ekki með fullnægjandi hætti forgangsröðun innleiddra EES-reglna gagnvart öðrum lagareglum.

Eins og rakið er í skýrslunni gaf stofnunin út rökstutt álit um málið í lok september á síðasta ári. Þar er farið fram á að Ísland grípi til fullnægjandi ráðstafana til að bæta úr. Íslensk stjórnvöld hafa á undanförnum mánuðum unnið að svarbréfi vegna álitsins og var það svarbréf sent til stofnunarinnar í lok síðustu viku að undangenginni samþykkt í ríkisstjórn og kynningu í utanríkismálanefnd.

Eins og fram kemur í skýrslunni er eitt af þeim atriðum sem hafa verið til skoðanir sú spurning hvort stjórnskipuleg vandkvæði séu á því að setja ákvæði í almennri löggjöf um að forgangsraða EES-reglum gagnvart annarri löggjöf. Íslensk stjórnvöld hafa einnig lagt áherslu á að mikil óvissa ríkir um forgangsáhrif EES-réttar á EES-svæðinu í kjölfar nýlegra dóma, annars vegar stjórnlagadómstóls Þýskalands og hins vegar yfirdómstóls stjórnsýslumála í Frakklandi, sem raktir eru í svarbréfi. Því sé ótímabært að leggja fram tillögur til breyttrar innleiðingar á bókuninni. Af sömu ástæðu sé ástæða til að ESA haldi að sér höndum með samningsbrotamál gagnvart Íslandi þar til mál skýrist. Þá var stjórninni bent á að ákvæði 3. gr. laga nr. 2/1993 hafa staðið óbreytt frá gildistöku laganna, lengst af án þess að stofnunin sjái ástæðu til að gera athugasemdir við það. Framkvæmd samningsins hafi gengið vel og ekki verði séð að Ísland sé eftirbátur annarra samningsaðila þegar kemur að innleiðingu EES-reglna. Enn fremur er bent á að það sé ekki hlutverk ESA að höfða að eigin frumkvæði samningsbrotamál af þessu tagi. Í því felst ótilhlýðileg íhlutun í innanríkismál hér á landi. Hlutverk ESA er fyrst og fremst að einbeita sér að framkvæmd og innleiðingu einstakra gerða sem teknar eru upp í EES-samninginn.