151. löggjafarþing — 91. fundur,  6. maí 2021.

framkvæmd EES-samningsins.

764. mál
[14:18]
Horfa

Ólafur Ísleifsson (M) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svarið, en ég heyrði hann ekki beinlínis svara spurningunni sem ég lagði fyrir hæstv. ráðherra. En yfirferð hans um þetta mál var mjög upplýsandi og gagnleg. Staðan er sú að við erum hér í þeirri aðstöðu að ESA hefur, eins og hér er rakið, hafið formlegt samningsbrotamál gagnvart okkur Íslendingum. Því er fylgt eftir af fullri hörku, m.a. með þessu rökstudda áliti sem dagsett er í september 2020, þannig að það er engin eftirgjöf af hálfu stofnunarinnar.

Þetta er auðvitað mjög þýðingarmikið mál og var rakið, eins og menn þekkja, að þegar EES-samningurinn var lögfestur á sínum tíma var það álit íslenskra stjórnvalda og Alþingis að 3. gr. laganna um EES-samninginn væri fullnægjandi innleiðing á þeim skuldbindingum sem þessi mikilvæga bókun 35 kveður á um. Þess vegna er það spurning mín: Hefur verið undirbúin áætlun um viðbrögð ef við færum halloka í slíku máli, sem við vonum auðvitað öll að gerist ekki? Og þá í því sambandi, hverjar yrðu afleiðingar þess að málsniðurstaða yrði með þeim hætti?