151. löggjafarþing — 91. fundur,  6. maí 2021.

framkvæmd EES-samningsins.

764. mál
[14:38]
Horfa

Rósa Björk Brynjólfsdóttir (Sf):

Herra forseti. Ég vil byrja ræðu mína á því að fagna þeirri ákvörðun sem tekin var hér í október 2019 um að í fyrsta sinn yrði gefin út sérstök skýrsla um framkvæmd EES-samningsins. Skýrsla sú sem við ræðum hér og umfjöllun um hana kom í stað reglubundinnar umræðu um EES-samninginn inni í stóru skýrslunni um utanríkisstefnu sem hæstv. utanríkisráðherra gefur þinginu á ári hverju. Ég tel það vera sérstaklega til bóta að þinginu sé gefin sérskýrsla um framkvæmd EES-samningsins og að við tökum sérstaka umræðu um hana því að ekki veitir af.

Ég ætla að minnast á nokkur atriði er tengjast EES-samningnum og yfirstandandi ári. Mig langar til að minna á að Covid-faraldurinn hefur að sjálfsögðu haft mikil áhrif á allt okkar líf, sömuleiðis á starfsemi ESB og EES-samninginn um leið. Líka vil ég leggja áherslu á að í þeim heimsfaraldri sem geisað hefur um allan heim hefur akkúrat þetta alþjóðlega samstarf okkar og alþjóðlegar skuldbindingar okkar í alþjóðasamvinnu verið okkur gríðarlegt haldreipi og akkeri í þeim aðgerðum sem við höfum gripið til og, eins og rakið er af miklum myndugleik í EES-skýrslunni um aðgengi að hlífðarbúnaði, lækningavörum og bóluefni. Sömuleiðis það sem Ísland hefur tekið þátt í, sem er að hluta ráðstafað í gegnum samstarfsáætlanir, í gegnum svokallaðan Bjargráðasjóð ESB. Það er gott að í skýrslunni sem við ræðum í dag séu teknar fram akkúrat þær aðgerðir vegna Covid sem algerlega má tengja við þátttöku okkar og aðild að EES-samningnum. Það gefur okkur líka yfirlit yfir hversu mikilvægt samstarfið er. Það er því af hinu góða og ég vonast til þess að áfram verði sérstök skýrsla um framkvæmd EES-samningsins gefin út hér á Alþingi og rædd.

EES-samningurinn er, eins og segir í skýrslunni, einn mikilvægasti alþjóðasamningur sem Ísland hefur gert. Gríðarlega mikill ávinningur hlýst af þessum samningi. Þetta er nánast kjölfestusamningur á alþjóðavísu sem Ísland á aðild að og veitir okkur ýmis réttindi en um leið skyldur. Við höfum aðgang að einum stærsta markaði heims, íslensk fyrirtæki keppa á jafnréttisgrundvelli við evrópsk fyrirtæki á þeim sviðum sem samningurinn tekur til og ekki síst geta Íslendingar búið og starfað í 31 ríki sem eru í ESB- og EES-samstarfinu. Þetta er því gríðarlega mikilvægur samningur.

Vegna þess að hæstv. utanríkisráðherra flytur þinginu þessa skýrslu núna í fyrsta og síðasta skipti á þessu kjörtímabili verð ég að minnast á að fyrrverandi utanríkisráðherra, hv. þm. Gunnar Bragi Sveinsson, var á undan mér hér í ræðustól og talaði um orkupakkann o.s.frv. sem var mikið til umræðu fyrir tveimur árum hér í þinginu og var málflutningur sem byggðist oft á miklum útúrsnúningum og misskilningi. En það er gott að viðbrögðin við þeirri umræðu hafi verið þau að koma fram með þessa skýrslu.

Mig langar hins vegar að benda á að þrátt fyrir að gefið hafi verið í að einhverju leyti varðandi hagsmunagæslu okkar í Brussel á þessu kjörtímabili — það hefur bæði verið gert með fastri viðveru fulltrúa fagráðuneyta í sendiráðinu og sömuleiðis hefur verið skilgreindur svokallaður forgangslisti ríkisstjórnarinnar í málefnum sem eru í lagasetningarferli hverju sinni hjá ESB og þykja koma beint við hagsmuni okkar — er það eitthvað sem maður hefði viljað sjá fyrr. Ég myndi vilja sjá meiri og öflugri hagsmunagæslu okkar í Brussel. Það er ekki nóg að vakta hagsmunagæslu okkar eins og gert er heldur þurfum við að vera á staðnum. Það hefur sýnt sig að það skiptir gríðarlega miklu máli. Hagsmunagæsla Norðmanna í þeim efnum er til fyrirmyndar. Um leið og ég segi það geri ég mér grein fyrir því að Norðmenn eru mun fjölmennari þjóð en við Íslendingar og hafa meiri fjármuni til hagsmunagæslu sinnar í Brussel. En ég vil hvetja hæstv. utanríkisráðherra og önnur fagráðuneyti, ef þau hafa ekki sent sína fulltrúa nú þegar, til þess að gera það. Íslenskt samfélag hagnast og græðir á því að við höldum uppi öflugri hagsmunagæslu og tengslum og tengingum á staðnum. Um leið og ég segi það geri ég mér að sjálfsögðu grein fyrir þeim annmörkum sem Covid-19 hefur búið okkur hvað viðkemur því að vera á staðnum í Brussel og halda úti hagsmunagæslu okkar.

Herra forseti. Ég verð að nefna það að í innganginum í skýrslu hæstv. utanríkisráðherra, á blaðsíðu 4, þykir mér að einhverju leyti slegnir varnartónar gagnvart þeim gagnrýnisröddum sem hafa verið uppi á þinginu, frá ákveðnum þingmönnum ákveðinna stjórnmálaflokka, eða stjórnmálaflokks, um aðild okkar að EES-samningnum. Tekið er sérstaklega fram að gjaldið fyrir þann ávinning sé ekki réttlætanlegt, sem hafi oft verið gefið í skyn, og feli í sér umfangsmikla innleiðingu EES-löggjafar. Þá er tekið sem dæmi að Ísland hafi tekið upp 13,4% þeirra gerða sem ESB samþykkti á tímabilinu 1994–2016. Það hvarflar að manni að slíkt sé sett fram í þeim tilgangi að tala til þeirra gagnrýnisradda sem uppi hafa verið um EES-samninginn, þegar við ættum að sjálfsögðu að róa að því öllum árum að hlutfall þeirra gerða sem Ísland tekur upp sé hærra. Í málflutningi hv. ræðumanns Gunnars Braga Sveinssonar hér áðan tiltók hann að gerðirnar sem við værum að taka upp væru ansi margar á síðastliðnu ári. Þá grunar mig helst að það orsakist einmitt af heimsfaraldrinum sem hefur geisað og þeim gerðum sem við höfum verið að taka upp vegna ýmissa aðgerða þar að lútandi.

Ég held því að við hér á Alþingi þurfum að standa með þessum gríðarlega mikilvæga samningi sem Ísland er aðili að og pakka ekki í vörn þegar gagnrýni kemur, heldur taka það akkúrat til okkar ef það er eitthvað sem við þurfum að bæta, hvort sem gagnrýnin beinist að því að hagsmunagæsla okkar sé ekki nægjanleg á vettvangi — mig minnir nú að fyrrverandi forsætisráðherra og utanríkisráðherra, Halldór Ásgrímsson, hafi á sínum tíma, strax árið 1994, talað um að hagsmunagæsla Íslands yrði að vera öflug í Evrópu og í Brussel. Orð hans og hvatning eru enn þá gild og góð.

Hagsmunagæsla okkar er gríðarlega mikilvæg og við þurfum að halda henni áfram. Við þurfum líka að vinna á þessum svokallaða upptökuhalla á EES-gerðunum, við þurfum að bæta þar úr. Það er ekki góðs viti hversu lág talan er á innleiðingum EES-gerða. Við þurfum akkúrat að gera það og við þurfum að taka okkur tíma í það. (Forseti hringir.) Margar þessara gerða eru tæknilegs eðlis og oft hvarflar það að manni að sumar þeirra ættu kannski ekki alveg að vera inni á borði þingnefnda heldur frekar hjá embættismönnum til að liðka fyrir, alla vega vinsa úr þá tæknilegu hluti sem eru í gerðunum. En þar hefur líka verið bætt úr. (Forseti hringir.)

Herra forseti. Ég er að fara yfir tímamörk, en ég vil ítreka þakkir fyrir að við séum að ræða loksins sérstaklega (Forseti hringir.) framkvæmd EES-samningsins hér í þingsal.