151. löggjafarþing — 91. fundur,  6. maí 2021.

framkvæmd EES-samningsins.

764. mál
[14:49]
Horfa

utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Það er gott að það er almennur skilningur á mikilvægi þess að við gætum hagsmuna okkar í þessu samstarfi og það hefur verið aukið stórlega í minni tíð sem ráðherra, það hefur verið farið í sérstakt átak í því að auka hagsmunagæsluna og það hefur gengið eftir. En varðandi 13,4%, af hverju verið er að vekja athygli á því, þá er það bara til að koma staðreyndunum á framfæri. Ég hef ekkert farið í grafgötur með að þeir sem hafa grafið mest undan EES-samningnum eru þeir sem vilja að Ísland gangi í ESB. Þeir hafa miskunnarlaust haldið því fram að við séum jafnvel að taka inn 90% af gerðum Evrópusambandsins í gegnum EES-samninginn, 90%. Það er bara rangt. Það er einfaldlega rangt. Menn hafa talað um að þetta sé einhvers konar aukaaðild, þetta snúist í rauninni bara um að detta þarna inn og þá förum við að stýra og stjórna öllu. Þetta er allt saman misskilningur, allt saman grundvallarmisskilningur. Ég hef verið að reyna að draga fram staðreyndirnar um hvað felst í EES-samningnum og hvað felst í ESB-aðild. Það er auðvitað himinn og haf þarna á milli. Það urðu tímamót í umræðunni hérna áðan þegar ESB-sinnar voru loksins að gangast við því að Evrópusambandið er tollabandalag. Við myndum afsala okkur viðskiptafrelsi með því að ganga í það.

Varðandi þennan fjölda, aukninguna sem hv. þm. Gunnar Bragi Sveinsson vísaði til, þá er það, eftir því sem ég best veit, fyrst og fremst út af breytingum varðandi fjármálamarkaðinn sem eru oft mjög tæknilegs eðlis. En við sýnum þær tölur af því að við viljum halda staðreyndum á lofti.