151. löggjafarþing — 91. fundur,  6. maí 2021.

framkvæmd EES-samningsins.

764. mál
[14:56]
Horfa

Rósa Björk Brynjólfsdóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Það þarf engan föðurlegan umvöndunartón við mig um það að aðild að Evrópska efnahagssvæðinu jafngildi ekki aðild að ESB. Ég geri mér að sjálfsögðu grein fyrir því, herra forseti. En það er ekki hægt að afneita bls. 13 í skýrslunni um EES-samninginn og upptökuhallann á EES-gerðunum sem heil blaðsíða fer í að útskýra. Þegar tafir eru á upptöku gerða í EES-samninginn geta þær haft neikvæð áhrif ef litið er til markmiðs samningsins.

Ég var sömuleiðis, ef hæstv. ráðherra hlustaði á ræðu mína, að hrósa íslenskum stjórnvöldum fyrir að hafa farið í átak í innleiðingu EES-gerða og við erum innan viðmiðunarmarka sem sett hafa verið á innri markaði EES-svæðisins varðandi innleiðingu EES-gerða. Það getur verið ásættanlegt markmið eða ásættanleg frammistaða fyrir einhverja. En ég held að það færi betur á því að markmið okkar væri hærra. Þess vegna tók ég líka dæmi um orðalagið og ákveðinn undirtón í innganginum að EES-skýrslunni. Þar getur okkur hæstv. utanríkisráðherra greint á. En mér finnst þar koma fram ákveðinn tónn sem beint er í ákveðnar áttir, þeirra sem hafa verið að grafa undan EES-samningnum hér á Alþingi. Það er það sem ég er að meina. Í staðinn fyrir það hefði ég viljað sjá skýrari og sterkari og glaðari tón í innganginum um það hversu mikill ávinningur er af þessum samningi, hversu mikinn ávinning við höfum haft af honum í þau 25 ár sem við höfum verið aðilar að honum.