151. löggjafarþing — 91. fundur,  6. maí 2021.

framkvæmd EES-samningsins.

764. mál
[14:58]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg):

Herra forseti. Ég ætlaði rétt aðeins að koma inn á þessi mál og þessa skýrslu. Þetta er í annað sinn sem hún er lögð fram þannig að við ræðum hana sérstaklega. Ég tek undir og held að það skipti miklu máli að við getum rætt fríverslunarsamningana og EES-málin sérstaklega, ekki bara sem aukamál inni í stóru skýrslu utanríkisráðherra um alþjóðamálin.

Ég hef á þessu kjörtímabili setið í þingmannanefnd EFTA og EES og haft tækifæri til að kynnast því hvernig þetta fer fram og hvaða áhrif lítil þjóð, í samvinnu og samstarfi við hinar EFTA-þjóðirnar, getur haft á eitt og annað í framkvæmd þessara samninga. Eðli máls samkvæmt fór starfið á síðasta ári fram á netinu eins og í öllu öðru erlendu samstarfi. Samt sem áður eru hér mál sem búin eru að vera gegnumgangandi undanfarið og hafa tekið langan tíma, t.d. Brexit-málin og í framhaldinu afstaða landanna til þeirra og hvers konar samningar yrðu gerðir. Af því að hér áðan var spurt hvaða lönd væri um að ræða þá hefur verið unnið með að reyna að endurnýja samninga og betrumbæta þá við marga, t.d. Mercosur-löndin og Suður-Kóreu, af því að við stöndum höllum fæti samkeppnislega séð gagnvart Bandaríkjunum og ESB, sem Suður-Kórea endurnýjaði sinn samning við. Við, EFTA-löndin, höfum ekki enn þá náð að bæta stöðu okkar eða endurnýja hana eins og við vildum þar. Í þessu er verið að tala um alla skapaða hluti eins og aðeins er farið yfir hérna; viðskipti, sjálfbæra þróun og vinnuvernd. Við funduðum einmitt í Liechtenstein sumarið 2019. Þar voru líka aðilar vinnumarkaðarins, eins og gjarnan er, a.m.k. einu sinni á ári, og mjög mörg mál undir, allt frá þessum málum og yfir í #metoo, vinnustaðaáreitni og ýmislegt fleira sem hefur verið rætt, norðurslóðamál og hvað annað. Auðvitað er verið að reyna að vinna að því að koma á nýjum samningum og endurnýja samninga mjög víða.

Skýrslan sem hér er undir er afskaplega góð og hnitmiðuð. Farið er vel ofan í einstaka þætti og er tekið svolítið utan um það hvers vegna við erum í þessu samstarfi og hvað það hefur gert fyrir okkur. Mig langar aðeins að grípa niður á nokkrum stöðum. Ég tek undir það sem sagt hefur verið varðandi hagsmunagæsluna okkar í Brussel, hún skiptir máli. Við treystum lengi framan af á Norðmenn, að þeir létu okkur vita ef eitthvað væri sem þyrfti að breyta, laga eða hafa augun á. Þeir eru með mikinn mannskap þarna úti til að fylgjast með. Síðan höfum við verið að bæta þetta mjög mikið og fagráðuneytin eru öll komin með starfsmenn úti í Brussel. Þegar við heimsóttum þau 2019 fann maður alveg fyrir því að það skiptir máli að hafa fólk úr fagráðuneytum, sem þá var komið, til þess að segja okkur enn frekar hvað væri undir því að það skiptir auðvitað máli að geta haft áhrif á eitthvað á mótunarstigi frekar en að gera það þegar það er kannski orðið of seint og jafnvel komið áleiðis og komið inn til ESB.

Hér er einmitt rakið hvað þessir fagfulltrúar gera. Þau fylgja auðvitað forgangslista ríkisstjórnarinnar í hagsmunagæslu okkar gagnvart ESB. Farið er yfir hvað það er helst, eins og ráðherra kom inn á; grænn sáttmáli og stafræna starfskráin. Hér er líka komið inn á forgangslista ríkisstjórnarinnar sem var samþykktur í fyrrahaust. Hann var gerður í samráði við hagsmunaaðila og lagður fyrir utanríkismálanefnd sem hefur fjallað um hann. Það skiptir máli að sem flestir komi að slíkum samningum þannig að mörg augu geti litið yfir það sem fram undan er og það sem við erum að gera hverju sinni. Þeim lista sem var áður lagður fram var breytt núna. Nú er þetta kannski léttara í vöfum, ef maður getur orðað það þannig. Það er einfaldara að uppfæra listann, þar er hægt að bæta við nýjum forgangsmálum eftir því sem þeim vindur fram og farið er betur ofan í það þannig að allir séu með á hreinu hvaða íslensku hagsmuna er verið að gæta.

Það er nú ekki langur tími sem maður hefur hér til umfjöllunar en það sem mér finnst kannski ástæða til að nefna sérstaklega á þessum nýja lista okkar um græna sáttmálann og stafrænu skrána er fimm ára stefna sem Evrópusambandið er með um jafnrétti kynjanna og nýja mismununarlöggjöf og baráttu gegn kynbundnu ofbeldi og heimilisofbeldi. Þar er markmið okkar að miðla þekkingu okkar í jafnréttismálum til stofnana ESB. Um leið er líka tillaga sem kveður á um að tryggja að allt launafólk innan ESB fái sanngjörn lágmarkslaun. Síðan er verið að tala um stofnun miðlægs eftirlitsaðila peningaþvættis og fjármögnunar hryðjuverka og að samræma regluverkið enn þá betur. Svo eru mál sem eru lengra komin, samstarfsmál sem voru á eldri lista og eru hér talin upp. Meðal annars er talað um orku- og loftslagsstefnuna og talað er um menntunar-, æskulýðs- og íþróttamál.

Síðan er hér eitt sem mér þykir skipta miklu máli, þ.e. breyttar reglur ESB um áburð. Þar erum við að reyna að gæta þess að þegar slíkt er tekið inn í EES-samninginn getum við takmarkað innflutning á lífrænum áburði sökum okkar sérstöku stöðu varðandi sjúkdóma í dýrum og plöntum. Það held ég að sé eitt af því sem við höfum fjallað dálítið mikið um, sérstaklega þegar rætt hefur verið um landbúnaðarmálin og tollamálin og það allt saman, eins og líka er rakið. Mér finnst það vera eitthvað sem dettur oft í að verða kannski einsleit umræða um.

Virðulegi forseti. Það sem er líka hér og er ofarlega á baugi í samstarfi okkar við EES eru evrópsku loftslagslögin og aðgerðaáætlun í hringrásarhagkerfinu. Nú er komið inn í þingið mál tengt hringrásarhagkerfinu sem ég vona sannarlega að við náum um að gera að lögum af því að ég tel að það skipti miklu máli. Það er rakið ágætlega á bls. 19 í tillögunni þar sem mælt er fyrir reglugerð um kolefnishlutleysi. Talað er um kolefnisleka og þá erum við auðvitað að tala um mismuninn á innfluttum vörum annars vegar og svo því sem við flytjum til útlanda.

Nú flýgur tíminn. Mikið er talað um og vel farið yfir uppbyggingarsjóði EES. Það er eitt af þessum stóru verkefnum sem mér finnst oft lítið vera gert með. Það skiptir miklu máli að hafa aðgang að þeim sjóðum. Hér er einmitt sagt frá því að við séum búin að bæta okkur dálítið vel. Hér var t.d. haldin jafnréttisráðstefna sem við stóðum fyrir í samvinnu við Portúgal árið 2019. Í kjölfarið var hannaður gagnagrunnur með upplýsingum, t.d. á sviði jafnréttismála.

Síðan er farið yfir samstarf Íslands og Póllands og fleiri landa, m.a. á sviði jarðvarma sem uppbyggingarsjóðurinn styrkir vel. Einnig er komið inn á dökku hliðarnar í samningi við Pólland, þ.e. afstöðu sveitarstjórna þar sem hefur verið mjög dapurleg varðandi hinsegin fólk sem hefur átt undir högg að sækja, eins og við þekkjum. EFTA-ríkin hafa fordæmt yfirlýsingar og afstöðu varðandi þessi mannréttindamál sem eru svo sjálfsögð og í rauninni kveða reglur sjóðsins á um að ekki sé hægt að styrkja verkefni í Póllandi með aðkomu þessara sveitarfélaga ef þau halda uppteknum hætti. Mér þykir mjög gott að búið sé að gera það.

Það er svo sem í farvatninu að nýtt tímabil er að hefjast og verið er að undirbúa þær viðræður gagnvart nýjum samningi. En nú er tíminn búinn, virðulegi forseti. (Forseti hringir.) Það væri hægt að ræða þetta mikið og lengi en mér þykir gott að geta rætt þetta hér. Það er mikilvægt því að þetta er regluverk (Forseti hringir.) sem skiptir okkur máli þótt gjarnan sé talað um að eiginlega sé allt vont sem innleitt er með EES.