151. löggjafarþing — 91. fundur,  6. maí 2021.

framkvæmd EES-samningsins.

764. mál
[15:09]
Horfa

Olga Margrét Cilia (P):

Forseti. Það er gott að EES-samstarfið gengur svona glimrandi vel, eins og kemur fram í skýrslu utanríkisráðherra um framkvæmd EES-samningsins. Það voru þó nokkrir punktar sem ég hnaut um í skýrslunni sem mig langaði aðeins að tala um. Ég er sammála því sem kemur fram um EES-samninginn, með leyfi forseta, að það sé mikilvægasti viðskiptasamningur okkar Íslendinga með þeim ótvíræða ávinningi sem aðild að EES-svæðinu hefur fært þjóðinni á undangengnum áratugum. Raunar má fullyrða að EES-samningurinn sé einhver mikilvægasti alþjóðasamningur sem við höfum gert.

Ég rak þó augun í það að íslenskir hagsmunir hvað varðar sjávarútvegsstefnuna samræmast ekki hagsmunum ESB. Þessi orðræða hefur ávallt truflað mig frekar mikið, sérstaklega í ljósi þess að með lögum um fiskveiðistjórnarkerfið hér á Íslandi var einkafyrirtækjum færð ein stærsta auðlind íslensku þjóðarinnar á silfurfati. Með því virðist hafa verið gefið leyfi til einkafyrirtækja að nýta arð af þeirri auðlind eins og þeim sýnist. Nú veit ég ekki endilega hvort einkafyrirtæki myndi nýta þennan arð betur ef við værum hér með EES-stefnu í sjávarútvegsmálum, en við hljótum þó velta því upp hvort hag almennings í landinu væri betur borgið þar inni og hvort einhverjar hömlur yrðu settar á brjálaðan gróða og óvarlega notkun fjárhagslegs arðs af auðlindinni. Þeim spurningum finnst mér aldrei hafa verið svarað almennilega af íslenskum yfirvöldum heldur er möguleikunum bara hent út af borðinu því að það á að liggja í augum uppi að við fáum ekkert út úr samstarfinu. En ég myndi vilja sjá þennan möguleika ræddan út frá því hvað væri almenningi í landinu fyrir bestu en ekki hvernig það myndi líta út fyrir einkafyrirtækin sem fá að nýta auðlindina í eigin þágu.

Varðandi almenna stjórnsýslu og starfsemi í tengslum við EES-samninginn er náttúrlega enn þá þessi innleiðingarhalli á gerðum frá ESB. ESA hefur í frammistöðumati sínu tekið fram að innleiðing gangi ekki nægilega vel fyrir sig og komið með aðrar athugasemdir. Vonandi verður reynt að bregðast við þeim.

Ég velti einnig fyrir mér hvort skynsamlegt væri að reyna að koma inn einhvers konar millistigi á milli þess sem aðlögunarferlið á sér stað úti í Brussel þar til gerðirnar koma hingað inn á þing til innleiðingar, hvort hægt væri að hafa einhvers konar ráðgjafa eða sérfræðing sem annað stigið, þannig séð, í þessu ferli svo unnt væri að fá upplýsingar um innleiðingar með fljótvirkari hætti og geta fengið staðfestingu á efni gerða og hvort skoða þurfi það sérstaklega áður en þær fara í ferli hér á landi.

Orðalagið kolefnishlutlaus heimsálfa finnst mér vera áhugavert. Ég velti því fyrir mér hvort þetta muni fela í sér að Evrópa ætli í meira mæli að flytja mengun út, ef svo má segja, þ.e. til landa sem hafa minna eftirlit eða lélegan fjárhag og gætu séð hag í því að taka við mengun af Evrópu. Vonandi verður þetta markmið skoðað í samhengi við heiminn allan.

Það sama má segja um notkun bóluefnis gegn Covid. Til að fá hjarðónæmi í heiminum öllum og tryggja öryggi fyrir öll þá tel ég mikilvægt að Evrópa reyni að deila bóluefninu víðar en einvörðungu innan Evrópu. Þótt Ísland sé lítið þá megum við ekki gleyma því að heimurinn er stærri en við og stærri en Evrópa og hafa það til grundvallar að ákvarðanir séu teknar að teknu tilliti til hags jarðarinnar og fólksins alls sem einnar heildar.

Í skýrslunni er talað um samstarf til að auka netöryggi. Ég legg áherslu á það og ítreka að öll sú vinna ætti að vera unnin með réttindi einstaklingsins í forgrunni og að hagsmunapot stórfyrirtækjanna nái ekki að hafa yfirhöndina í umræðum og ákvörðunum er það varðar.

Í lokin langar mig að segja að við þurfum að vera virk í því að gæta hagsmuna okkar og ég vona að sú góða þróun sem hefur átt sér stað síðustu ár muni halda áfram. Við virðumst því miður ekki hafa nægt fjármagn eða mannafla til að sinna þessu eins vel og við vildum. En vonandi munum við geta haldið utan um og þróað þetta mikilvæga alþjóðasamstarf okkar áfram.