151. löggjafarþing — 91. fundur,  6. maí 2021.

framkvæmd EES-samningsins.

764. mál
[15:13]
Horfa

utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ágæta ræðu. Bara vegna orða hv. þingmanns um gerðirnar þá er það akkúrat það sem er gert, það eru vinnuhópar á vegum EFTA sem greina hvaða áhrif gerðirnar hafa áður en málin fara til sameiginlegu EES-nefndarinnar og síðan gengur það auðvitað áfram. Sömuleiðis hefur verið settur upp sérstakur gagnagrunnur sem er aðgengilegur öllum sem það vilja til þess að geta kannað afleiðingar og hvað sé í gangi þegar kemur að EES-samstarfinu. Og síðan erum við með fulltrúa ráðuneytanna sérstaklega til að fylgjast með því hvað gerist á fyrstu stigum.

Varðandi sjávarútveginn þá getum við og eigum að hafa allar skoðanir á sjávarútvegsmálum hér á Íslandi. Kosturinn við að við erum fyrir utan þetta samstarf er að við getum ráðið þessu sjálf. En af því að hv. þingmaður var að vísa til veiðileyfa og kvóta o.fl. þá hafa líka íslensk fyrirtæki aðgang að fiskveiðilögsögu Evrópusambandsins því að það er nákvæmlega það sama í gangi og að ég held í flestum þeim löndum sem stunda sjávarútveg, að það er einhvers konar slíkt fyrirkomulag til staðar. Það er á mjög fáum stöðum, ég veit ekki til þess neins staðar, alla vega þar sem veitt er með sjálfbærum hætti, að það séu frjálsar veiðar vegna þess að þetta er takmörkuð auðlind. En ég vona að við séum flest þeirrar skoðanir, sama hvaða skoðanir við höfum á því sem hefur verið gert og hvort það hafi gengið jafn vel og menn lögðu upp með, að það sé mikilvægt fyrir Ísland að hafa fulla stjórn á sinni eigin auðlind og að við sem erum í þessum sal og kosin af fólkinu í landinu getum gert þær breytingar sem við viljum á því kerfi.