151. löggjafarþing — 91. fundur,  6. maí 2021.

framkvæmd EES-samningsins.

764. mál
[15:16]
Horfa

Olga Margrét Cilia (P) (andsvar):

Forseti. Það gleður mig að heyra þetta með gerðirnar, að þær séu greindar áður en þær fara inn í EES-nefndina og vonandi mun það starf halda áfram. Það sem ég er að reyna að koma á framfæri með sjávarútveginn er meira hvernig umræðan um þetta er. Þetta er kannski ekki eins mikið í samfélagsumræðunni núna og var fyrir einhverjum árum. Þegar það hefur komið þrýstingur á að við ættum að fara alveg inn í ESB hefur því alltaf verið haldið fram að það sé betra fyrir okkur að vera fyrir utan. Auðvitað erum við með einhverja samninga sem gilda, ég átta mig alveg á því. Og þetta með að hafa forræði á okkar eigin auðlindum, við erum kannski komin svolítið út fyrir ESB-réttinn að ræða þetta en ég hef alltaf velt því fyrir mér sem einstaklingur hvort það sé eitthvað í ESB-kerfinu, ef við værum þar inni að öllu leyti, hvað varðar sjávarútveginn sem myndi bæta hag einstaklinga að einhverju leyti. Mögulega er það ekki svo. En ég myndi vilja sjá einhvers konar mat eða umræðu um það. Orðræðan tekur alltaf svo mikið mið af þessum einkafyrirtækjum en ég er kannski með háleita drauma um hvernig arður af auðlindunum á að vera notaður og hvernig þetta á allt saman að virka. En ég veit ekki hvort það væri betra.