151. löggjafarþing — 91. fundur,  6. maí 2021.

framkvæmd EES-samningsins.

764. mál
[15:17]
Horfa

utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Ég er algjörlega fylgjandi því að við gerum það alltaf, því að við náum aldrei fullkomnun í því að vera til, við eigum að bera saman fiskveiðistjórnarkerfi okkar við önnur kerfi annars staðar og sjá hvort við getum lært eitthvað af því sem þar er gert. En það er mín skoðun að við eigum ekki að afsala okkur þessu til einhverra annarra. Ef við skoðum þau lönd sem gengið hafa í Evrópusambandið, tökum skýrt dæmi eins og um Breta núna, sem gengu síðan út, þá var fullyrt í breskum fjölmiðlum að þeir veiddu 25% af því sem væri veitt í þeirra eigin lögsögu eftir að vera búnir að vera ein 40 ár í Evrópusambandinu. Það voru samt sem áður gerðar alls konar ráðstafanir til að halda þessu inni í breskum fyrirtækjum og að Bretar sinntu þessum veiðum, en það gekk ekki betur en svo. Og meira að segja þegar þeir gengu út var krafa Evrópusambandsins alveg skýr áfram um að fá að veiða í bresku lögsögunni, eins og við þekkjum.

Ég veit ekki um neitt betra fyrirkomulag fyrir Ísland og Íslendinga en að Ísland og Íslendingar fari með forræði á sínum málum og síðan tökumst við á og erum sammála eða ósammála. En í það minnsta getum við stjórnað því, þá er ég að tala um okkur Íslendinga, með því að greiða atkvæði þeim flokkum sem við teljum að séu líklegastir til að gera hlutina vel. Án þess að ég vilji fara í umræðuna um sjávarútvegsmál, ég er alveg til í það og hef gert það margoft, þá vilja menn gleyma því þegar þeir tala um að eitthvað gleymist í umræðunni, að ein af þeim spurningum sem ég fæ frá mínum kollegum er: Hvernig farið þið að þessu? Síðast þegar ég vissi vorum við eina landið í OECD sem tekur skatta af sjávarútvegi, allir hinir greiða með honum. Þetta eru sjálfbærar veiðar, en ósjálfbærar veiðar eru gríðarstórt vandamál úti um allan heim. Það er því enginn vafi á, þó svo að aldrei megi halda því fram að við höfum náð fullkomnun í neinu sem við gerum, að þessi þættir, sjálfbærnin og það að við séum ekki að nota peninga skattgreiðenda til að greiða niður útgerðina eins og í öðrum löndum, (Forseti hringir.) er eitthvað sem við þurfum ekki að hafa áhyggjur af vegna þeirrar fiskveiðistjórnar sem við erum með núna. (Forseti hringir.) En ég er ekki að segja að hún sé fullkomin frekar en neitt annað.