151. löggjafarþing — 91. fundur,  6. maí 2021.

utanríkis- og alþjóðamál.

765. mál
[16:35]
Horfa

utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir fyrirspurnina. Ég veit ekki alveg hvað hv. þingmaður á við þegar hún talar um að kaflinn sé þröngur. Hann vísar náttúrlega að stórum hluta til þess samstarfs sem við erum í. Annars vegar erum við í Atlantshafsbandalaginu og hins vegar með tvíhliða varnarsamning við Bandaríkin. Það er hornsteinn að okkar vörnum og gerir það að verkum að við getum verið herlaus þjóð. Það er áhugavert, virðulegi forseti, af því að það er almenn sátt um þetta á Norðurlöndunum, að þó svo að Finnland og Svíþjóð séu ekki í Atlantshafsbandalaginu eru þau í mjög nánu samstarfi og eru með nánustu samstarfsríkjum Atlantshafsbandalagsins og það stjórnmálaafl í Noregi t.d. sem vill ekki vera í Atlantshafsbandalaginu leggur áherslu á að á móti komi að það þurfi að efla norska herinn verulega. Þegar kemur að samningum þá höfum við lagt á það áherslu og munum halda áfram að leggja áherslu á að gerðir séu samningar og staðið sé við þá. En vandinn er náttúrlega sá að það hefur ekki gengið alveg eftir. Í því felst vandinn. Ef við tökum stóru myndina þá hefur sem betur fer orðið mikil afvopnun en hún hefur verið gagnkvæm frá dögum kalda stríðsins og hefur verið gríðarlega mikil. En núna erum við að sjá blikur á lofti og höfum séð það í nokkurn tíma. Þess vegna eru þessir samningar ekki á þeim stað sem við myndum vilja. En afstaða okkar er mjög skýr. Við leggjum áherslu á að gerðir séu afvopnunarsamningar og það sé skipulega farið í afvopnun en það sé gert með gagnkvæmum hætti, að það sé staðið við þá samninga. En við þekkjum það að ef einn aðili gerir það ekki þá hafa menn tilhneigingu til að segja sem svo að þá neyðist þeir til að leggja meira í sínar varnir.