151. löggjafarþing — 91. fundur,  6. maí 2021.

utanríkis- og alþjóðamál.

765. mál
[16:42]
Horfa

utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir fyrirspurnina. Það stendur ekki neitt á íslenskum stjórnvöldum þegar kemur að viðhaldsverkefnum á varnarsvæðinu. Þetta er að vísu nokkuð rakið á blaðsíðu 83–84. Eins og hv. þingmaður veit þá hafa verið hér meiri framkvæmdir en við höfum séð í áratugi. Þær framkvæmdir sem lokið hefur verið í minni tíð eða eru í gangi eru upp á yfir 20 milljarða. En það er hins vegar ekkert um það að ræða að íslensk stjórnvöld séu að halda aftur af einhverjum viðhaldsverkum. Það er einfaldlega ekki rétt. Þetta er ágætlega rakið á blaðsíðu 84, helstu einstöku viðhalds- og endurbótaverkefnin o.s.frv. Vísað er í breytingar og endurbætur á flugskýli 831 á öryggissvæðinu á Keflavíkurflugvelli. Áætlað er að endurbótum verði lokið fyrir árslok 2021. Bygging þvottastöðvar fyrir flugvélar stendur yfir og ráðgert að ljúki um mitt ár. Ráðist hefur verið í viðhald og endurbætur á flugbrautum, flughlöðum, akstursbrautum og ljósakerfi innan og utan öryggissvæðisins á Keflavíkurflugvelli. Verið er að hefja vinnu við stækkun og byggingu flughlaðs fyrir flugvélar með hættulegan farm og undirstaðna fyrir tímabundna gámabyggð. Verkefni þessi eru að mestu leyti kostuð af Atlantshafsbandalaginu og Bandaríkjunum.