151. löggjafarþing — 91. fundur,  6. maí 2021.

utanríkis- og alþjóðamál.

765. mál
[16:44]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég fagna því að hæstv. ráðherra hefur staðfest að íslensk stjórnvöld standi ekki í vegi fyrir eðlilegu viðhaldi og framkvæmdum á varnarsvæðinu og þeim skuldbindingum sem við höfum undirgengist í þeim efnum. Ég vildi spyrja hæstv. ráðherra hér í seinna andsvari örstutt varðandi tvísköttunarsamninga. Nú er það þannig að við höfum gert 45 samninga, segir hér í skýrslunni á blaðsíðu 68, en í samanburði við nágrannalönd okkar eru þetta afar fáir samningar. Danmörk er með 76 samninga, að mér skilst, Noregur 87, Holland 95 og Bretland 126. Ég myndi telja að þetta væri nú ekkert allt of góður árangur af hálfu Íslands hvað þetta varðar vegna þess að þetta er afar mikilvægt. Það er slæm staða fyrir íslenskt efnahagslíf og viðskiptalíf ef við höfum ekki tvísköttunarsamninga við ákveðin ríki sem fyrirtæki eru í viðskiptum við. Þetta gerir það að verkum að umhverfi íslenskra fyrirtækja er óhagstætt og þetta skekkir samkeppnisstöðuna. Þannig að ég vil bara spyrja hæstv. ráðherra: Hvað veldur þessum slaka árangri okkar í því að gera tvísköttunarsamninga í samanburði við þessi ríki sem ég nefndi?