151. löggjafarþing — 91. fundur,  6. maí 2021.

utanríkis- og alþjóðamál.

765. mál
[16:47]
Horfa

Rósa Björk Brynjólfsdóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. utanríkisráðherra fyrir framsöguna. Ég ætla í fyrra andsvari mínu að spyrja um samskipti Íslands við tvö lönd. Annars vegar er það Palestína. Ég sé að árið 2020 runnu 863 milljónir til mannúðarsamstarfs í víðu samhengi og mig langar til að vita hve stór hluti af þeirri upphæð fer til Palestínu, flóttamannaaðstoðarinnar UNRA, og hvort og þá hvernig Ísland hefur nýtt sér fríverslunarsamning við Palestínu á þeim tímum sem við höfum upplifað frá því að við ræddum hér síðast um stefnu Íslands í utanríkismálum.

Hitt landið sem mig langar að spyrja um í fyrra andsvari sínu er Rússland vegna þess að ég verð bara að játa, herra forseti, að ég átta mig ekki alveg á því hvernig samskiptum okkar við Rússland er háttað. Árið 2014 urðu þáttaskil í öryggispólitísku tilliti þegar Rússar innlimuðu Krímskaga og þeir hafa orðið æ óútreiknanlegri þegar kemur að öryggis- og varnarmálum og hafa aukið hernaðarumsvif sín. Við höfum tekið þátt í viðskiptaþvingunum í samhengi við Evrópusambandið. Rússnesk stjórnvöld banna enn þá innflutning á íslenskum fiski og ráðamenn þjóðarinnar neituðu sér um að fara á heimsmeistaramótið sem haldið var í Rússlandi í knattspyrnu, til að horfa þar á framgöngu íslenska landsliðsins, í mótmælaskyni við framferði Rússa. Samt sem áður er í gangi eitthvert afskaplega kósí og huggulegt samband þarna á milli. Stofnað hefur verið íslenska-rússneska viðskiptaráðið og ýmiss konar samskipti eru í gangi, sem maður myndi ætla að væru ekki alveg í samhengi við hitt. Þannig að mig langar til að vita: Hvernig er þessu sambandi í raun og veru háttað? Hvernig er þessum tvíhliða samskiptum Íslands og Rússlands háttað í raun og veru? Og svo er það fyrri spurning mín um Palestínu.