151. löggjafarþing — 91. fundur,  6. maí 2021.

utanríkis- og alþjóðamál.

765. mál
[16:52]
Horfa

Rósa Björk Brynjólfsdóttir (Sf) (andsvar):

Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir andsvarið og hvet hann til þess að kynna sér nánar útfærslu fríverslunarsamningsins af því að ég hef áður spurt hæstv. utanríkisráðherra um fríverslunarsamninginn við Palestínu. 60 milljónir af 863 milljónum í mannúðarstarf verð ég að játa, herra forseti, þykir mér ekki mikið miðað við að þetta er svona lykilland í okkar mannúðarsamstarfi á þeim tímum sem við lifum. Varðandi Rússland þá vil ég hvetja hæstv. ráðherra til að gera betur þegar kemur að því að tryggja hagsmuni Íslands fyrst þessi miklu samskipti eiga sér stað og sér í lagi vegna þeirra ummæla sem hæstv. ráðherra hefur látið falla á þingi og gerði rétt áðan um þá umferð kjarnorkukafbáta sem grunur hefur leikið á hér á norðurslóðum.

Í seinna andsvari langar mig að nefna að Ísland hefur samkvæmt skýrslunni veitt hálfan milljarð í COVAX-verkefnið sem er frábært, það er vel og algerlega í takt við okkar siðferðislegu skyldur á alþjóðavettvangi. Mig langar að vita hvernig samskiptum, samningum og hagsmunagæslu okkar hefur verið háttað (Forseti hringir.) í samningum við ESB eða önnur ríki núna í Covid-faraldrinum þegar kemur að afhendingu og samningum um bóluefni. (Forseti hringir.) Forsætisráðherra fór í fjölmiðla og talaði um Sputnik — afsakið, herra forseti, ég ætla bara að klára þessa spurningu — hið rússneska sem hefur ekki fengið grænt ljós frá Evrópsku lyfjastofnuninni. (Forseti hringir.) En ég verð að játa að ég er mjög forvitin að vita hver þáttur íslenska utanríkisráðuneytisins er nákvæmlega þegar kemur að hagsmunum okkar á alþjóðlegum vettvangi varðandi afhendingu bóluefna og samninga. Það væri mjög fróðlegt að heyra það frá hæstv. utanríkisráðherra.