151. löggjafarþing — 91. fundur,  6. maí 2021.

utanríkis- og alþjóðamál.

765. mál
[16:54]
Horfa

utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Þegar kemur að bóluefnunum og kaupum á þeim þá liggur alveg fyrir að það er á forræði heilbrigðisráðuneytisins. Við gerum hins vegar allt hvað við getum þegar eftir því er leitað að liðka fyrir. Sendiráðin eru t.d. ekki bara fyrir utanríkisráðuneytið, þau eru fyrir öll önnur ráðuneyti líka og auðvitað fyrir Íslendinga almennt. En varðandi þessi mál almennt þá hefur kannski verið mest áberandi að við beittum okkur mjög hart gegn reglugerð Evrópusambandsins og sem betur fer var henni breytt núna í gær. Varðandi COVAX og þróunarríkin þá settum við í upphafi faraldurs strax áherslu á það í okkar þróunarsamvinnu að leggja áherslu á að hún yrði miðuð við það að hjálpa löndum sem verða fyrir veirunni eins og við öll hin. (Forseti hringir.) Það er svona stutta útgáfan af þessu. Ég gæti talað lengi um þróunarsamvinnuna.