151. löggjafarþing — 91. fundur,  6. maí 2021.

utanríkis- og alþjóðamál.

765. mál
[17:27]
Horfa

Olga Margrét Cilia (P):

Forseti. Ég þakka fyrir þessa skýrslu. Ég ætla að byrja á því að segja að það er gleðilegt að farið sé að nota fjarfundi í meira mæli en verið hefur. Vonandi mun sú þróun halda áfram og kannski verður sett einhvers konar stefna í þeim málum á alþjóðagrundvelli, því verði svolítið forgangsraðað hvað er hægt að taka á fjarfundi og hvenær nauðsynlegt er að mæta á svæðið. Ég held að þetta hafi sýnt okkur að það er hægt að gera alls konar í gegnum hið svokallaða internet.

Ég stoppaði aðeins við orð í kaflanum um pólitísk samskipti við önnur ríki. Þar er talað um að mannréttindabrot Rússlands hafi gert samstarfið svolítið erfitt og svo segir auk þess, með leyfi forseta: „Með líku lagi skyggja efasemdir um stöðu mannréttinda í Kína á mikil og vaxandi samskipti við kínversk stjórnvöld.“ Ég veit svo sem ekki hvort það sé rétt að tala um það í skýrslunni en ég sakna þess alla vega að ekki komi svolítið hörð afstaða frá íslenskum stjórnvöldum varðandi mannréttindabrot gegn hinsegin fólki; í Rússlandi, Kína og einnig í Bandaríkjunum. Í frétt frá 21. nóvember 2020 segir, með leyfi forseta: „Aldrei áður hafa fleiri trans eða kynsegin fallið fyrir morðingjahendi í Bandaríkjunum en á þessu ári“, þ.e. 2020. Í fréttinni er vísað í ársskýrslu Human Rights Campaign, en þar er talað um ofbeldi gegn fólki sem fellur utan kynjatvíhyggjunnar sem faraldur hatursglæpa. Valdbeitingin sé keyrð áfram af fordómum og fælni sem kynt sé undir með orðræðu þeirra sem líkar ekki hve langt réttindabaráttan hefur náð. Auk þess ber að nefna að á síðasta ári sleit stjórn Hinsegin daga á Íslandi samstarfi við bandaríska sendiráðið sem hafði fram að því verið einn stærsti styrktaraðili gleðigöngunnar. Ég átta mig á því að mikið af þessu er kannski komið frá valdatíð Trumps, hann var náttúrlega mjög mikið á móti því að auka réttindi hinsegin fólks og dró til baka mikið af réttindum trans fólks. Trump er farinn frá völdum en orðræða hans gagnvart hinsegin fólki hefur haft gríðarleg áhrif á bandarískt samfélag og hefur enn áhrif á lagasetningu á ríkisstiginu. Miðað við aukningu hatursglæpa gegn hinsegin fólki þá myndi ég telja að við ættum að vera vakandi fyrir stöðu mannréttinda hinsegin fólks í Bandaríkjunum.

Í Rússlandi þarf hinsegin fólk að lifa í ótta þar sem meiri hluti Rússa lýsir sig andstæðan samkynhneigð og samkynhneigð pör hafa ekki rétt til að vera í lögbundinni sambúð, svo dæmi sé tekið, og hafa þar með ekki sömu réttindi og gagnkynja pör. Það eru engin lög í Rússlandi sem banna mismunun á grundvelli kynhneigðar, kynvitundar eða kyngervis. Svipað er uppi á teningnum í Kína þar sem er bara ekkert í rauninni sem verndar hinsegin fólk gegn hatursorðræðu.

Þetta eru réttindi sem Ísland þarf að vera framarlega í flokki að standa á bak við. Við þurfum að benda á þau og þrýsta á að það verði gert eitthvað í þessum málum í þessum löndum.

Svo er í skýrslunni fjallað um málefni hafsins. Þau eru okkur vissulega hugleikin, þar sem Ísland er eyja í Atlantshafinu. Ég vona að í umræðum um það verði sjónum beint að þeirri gríðarlegu plastmengun sem stafar af sjávarútvegsiðnaðinum á heimsvísu. Mig minnir að um 90% alls plasts í sjónum megi rekja til iðnaðar, sem sagt ekki einstaklinga. Það er nauðsynlegt að ríki heims átti sig á þessu og séu með skýra stefnu til að hreinsa upp plast og koma í veg fyrir frekari dreifingu á heimshöfin. Sjávarlífríkið í heild sinni er undir og erfitt að segja að við höldum út góðum sjávarútvegi ef við getum ekki veitt neitt.

Hér er fjallað um svokallaðar fjölþáttaógnir og segir, með leyfi forseta: „Geta til að takast á við netárásir er á forræði hvers ríkis.“ Ég velti því upp hvort og hvernig íslenska ríkið er í stakk búið til að takast á við það ef hér yrðu viðamiklar netárásir og eflaust hafa verið gerðar einhverjar netárásir án þess þó að almenningur viti af því. Ég velti fyrir mér hvort skilningur og þekking innan stjórnsýslunnar sé til staðar til að skapa öryggisstefnu til framtíðar og takast á við árásir ef þær koma upp. Ég tel alla vega að það sé mjög mikilvægt að við séum framarlega í þessum flokki. Meiri hluti þjóðarinnar er nettengdur, við erum farin að gera fleiri hluti á internetinu en við gerðum. Þetta er líka mikilvægt í sambandi við pólitíska orðræðu því að undir fjölþáttaógnir falla falsfréttir og upplýsingaóreiða sem er gerð til að ýta undir óstöðugleika og grafa undan trausti einstakra ríkja. Við búum við þann veruleika að mikið af samskiptum okkar og upplýsingaöflun á sér stað á internetinu og við getum í raun öll sett upplýsingar á netið. Cambridge Analytica-málið opnað líka augu okkar fyrir því að stjórnvöld geta með ógnvænlegum hætti haft mikil áhrif á skoðanir og upplýsingaöflun fólks. Það er von mín að ráðuneytið hafi dregið einhvern lærdóm af því máli og sett sér einhvers konar stefnu til að draga úr upplýsingaóreiðu og tryggja vernd tjáningarfrelsisins á sama tíma.

Það er gleðilegt að borgaraþjónustan og prótókollskrifstofan gátu brugðist svona vel við Covid-atburðinum. Ég saknaði þess þó að sjá ekki meiri umfjöllun um ferla og starfsemi þessara skrifstofa þegar kemur að öðrum hlutum en Covid. Það kom einhvers staðar fram að það væri gríðarlega mikill fjöldi Íslendinga sem dveldi erlendis á hverjum tímapunkti. Fyrir Covid og örugglega eftir Covid er t.d. stórt íslenskt samfélag á Spáni. Ég vona að það séu einhverjir ferlar og stefna um hvernig taka á á þeim málum þegar Íslendingar þurfa aðstoð í þessum löndum, þ.e. túlkun eða aðra lagalega þjónustu. — Annars þakka ég fyrir þá umræðu sem verið hefur hér í dag.