151. löggjafarþing — 91. fundur,  6. maí 2021.

utanríkis- og alþjóðamál.

765. mál
[17:44]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M):

Herra forseti. Ég vil byrja á að þakka fyrir þessa skýrslu, eins og fleiri hafa gert hér. Hún er vel unnin, það hefur verið lagður metnaður í þessa skýrslu og ég fagna sérstaklega uppsetningunni sem er góð. Ýmislegt í henni er orðið myndrænt sem eykur skilning og gerir hana betri aflestrar þannig að ég þakka fyrir þessa vinnu og þakka fyrir framsögu hæstv. ráðherra fyrir henni.

Það er af mörgu að taka í þessari skýrslu en maður verður að takmarka sig tímans vegna. Ég vil byrja á að koma inn á það sem rætt er á bls. 25, um pólitísk samskipti við einstök ríki. Þar vil ég koma aðeins að samskiptum við Rússland. Það segir hér að þó að áhersla sé lögð á jákvæð samskipti verði ekki hjá því komist að lýsa áhyggjum af hernaðarumsvifum Rússlands á norðurslóðum og undirróðri rússneskra stjórnvalda í vestrænum lýðræðisríkjum. Ég vil taka undir þessar áhyggjur. En það er nú einu sinni þannig að í góðum samskiptum geta menn komið ýmsu á framfæri sem þeir hafa áhyggjur af og það er það sem mér finnst að við eigum að gera í samskiptum okkar við Rússa. Ég hefði viljað sjá að við myndum reyna að bæta samskiptin við Rússland og reyna að finna einhverja áætlun t.d. í því að hefja full viðskipti við Rússland, sem ég held að sé mikilvægt fyrir okkar markaði. Rússar settu á okkur viðskiptabann í framhaldi af aðgerðum Evrópu vegna innrásarinnar á Krímskaga og vissulega er það alvarlegt mál. En það þarf líka að taka upp samtalið við Rússa og nota tækifærin í þeim efnum þegar svo ber undir. Gleymum því ekki að Rússar voru mikil vinaþjóð okkar. Nú eru samskipti, held ég, sumra Evrópusambandsríkja orðin meiri og betri við Rússa en við höfum haft við Rússa. Má þar nefna t.d. Ungverjaland, Serbíu, Slóveníu og jafnvel Ítalíu, svo dæmi sé tekið. Ég hefði viljað að við myndum reyna að bæta samskiptin við Rússa með einhverjum hætti og kannski er tækifærið núna í þessum mánuði þegar norðurslóðafundurinn verður haldinn hér. Það er mjög mikilvægur og stór fundur og ég óska utanríkisráðherra góðs gengis á honum og við undirbúning hans. Þetta er mikilvægur fundur þar sem Rússar eru að taka við formennskunni í Norðurskautsráðinu.

Næst vildi ég víkja aðeins að því sem segir á bls. 38 í skýrslunni um fjölþjóðlega þróunarsamvinnu og sérstaklega það sem segir að jafnrétti kynjanna og valdefling kvenna sé eitt af meginstefjunum í allri þróunarsamvinnu og mannúðaraðstoð Íslands. Þetta eru mjög göfug og góð markmið og við erum orðin þekkt fyrir þetta og það er af hinu góða. Það segir jafnframt: „Í samræmi við stefnu Íslands snýst fjölþjóðastarfið að miklu leyti um fjárstuðning og samstarf við þrjár stofnanir Sameinuðu þjóðanna“, og síðan eru þær taldar upp. Hæstv. ráðherra nefndi hér t.d. í einu andsvari nokkur stöðugildi við eina stofnun Sameinuðu þjóðanna. Ég held að við ættum að reyna allt hvað við getum til þess að fjölga þessum stöðugildum. Hér er talað um beinan fjárstuðning en ég held að það væri af hinu góða ef við myndum reyna að nýta okkar góða fólk, eins og t.d. í heilbrigðisgeiranum, til þess að vinna við þessar stofnanir í meira mæli en gert er vegna þess að þörfin er gríðarlega mikil.

Á bls. 41 er fjallað um stofnun sem heitir mannfjöldasjóðurinn, ensk skammstöfun hans er UNFPA. Þetta er mjög merkileg stofnun. Ég hef heimsótt hana og kynnt mér hana og hún býr þróunarríki undir fyrirsjáanlega fólksfjölgun en hún fjallar líka um mál sem tengjast frjósemi og kynheilbrigði, mæðravernd og fæðingarhjálp. Hér er á ferðinni ákaflega mikilvægt verkefni og m.a. hefur stofnunin vakið athygli á og reynt að vinna gegn limlestingum á kynfærum kvenna, sem er gríðarlega mikilvægt verkefni. Ég hefði óskað þess að við myndum reyna að styðja betur við bakið á þessari stofnun því að það fer lítið fyrir henni miðað við aðrar stofnanir, það eru aðrar stofnanir eins og UN Women og UNICEF sem eru dóminerandi í allri umræðu. En þessi stofnun er að gera virkilega góða hluti sem ég held að við ættum að reyna að styðja enn betur við bakið á.

Ég ætla að víkja næst að bls. 44 þar sem fjallað er um tvíhliða þróunarsamvinnu. Þar er talað um samstarfsþjóðir Íslands, þ.e. Malaví og Úganda. Það er af hinu góða. En ég hefði viljað að við myndum nýta tækifærið þegar við erum í þessari þróunarsamvinnu og vekja athygli á mannréttindabrotum í þessum löndum, sérstaklega hvað varðar svokölluð barnahjónabönd eins og í Malaví þar sem er mikið um þau, ég held að það séu um 40% stúlkna sem giftast fyrir 18 ára aldur, 9% fyrir 15 ára aldur. Það sama á við í Úganda. Þessi lönd eru þekkt fyrir barnahjónabönd og við eigum svo sannarlega að vekja athygli á þessum mannréttindabrotum og nota öll tækifæri til þess. Við erum með sendiráð þarna og erum að gera þarna góða hluti sem stjórnvöld í viðkomandi landi kunna að meta. Þá eigum við líka að nota tækifærið og benda á það sem betur má fara hjá þessum ríkjum. Það er náttúrlega ákaflega dapurlegt að horfa upp á þessi barnahjónabönd sem eru allt of algeng í þróunarlöndum og hrein hörmung að vita til þess að verið sé að eyðileggja æsku svo margra stúlkubarna með þessum hætti. Það sama á við lönd sem eru hér nefnd í sambandi við fiskveiðiverkefni sem við sinnum í Líberíu og Síerra Leóne. Það er það sama uppi á teningnum þar. Ég sá tölur frá UN Women um að í Síerra Leóne væru það um 800.000 börn sem hefðu verið send í hjónaband, nauðungarhjónaband, fyrir 18 ára aldur og um 400.000 börn fyrir 15 ára aldur. Í Líberíu er t.d. limlesting kvenna stórkostlegt vandamál, alveg stórkostlegt vandamál. Miðað við tölurnar sem ég sá eru það níu af hverjum tíu konum þannig að þarna er svo sannarlega verk að vinna. Ég vil hvetja hæstv. utanríkisráðherra til að nýta tækifærin, láta okkar góða starfsfólk sem er að vinna þarna koma því stöðugt á framfæri að á þessu verði að vinna bug og hér sé um klár og hrein mannréttindabrot að ræða.

Tíminn líður hratt og það er fleira sem ég ætlaði að koma á framfæri. Ég vildi nefna tvísköttunarsamningana sem ég kom inn á í andsvari við hæstv. utanríkisráðherra. Ég legg áherslu á að samkeppnishæfi Íslands gagnvart öðrum ríkjum hvað varðar lagaumhverfi fyrirtækja er viðfangsefni sem við verðum að vera stöðugt vakandi yfir og einföld atriði geta gert það að verkum að samkeppnisstaða Íslands sem land tækni og nýsköpunar verði að engu vegna þess að við höfum ekki tvísköttunarsamninga. Ég fagna því bara sem hæstv. ráðherra sagði í andsvari að við þurfum að gera betur í þessum efnum. Við erum eftirbátar annarra ríkja hvað þetta varðar, t.d. Noregs og Danmerkur. Hér er verk að vinna og ég hvet hæstv. ráðherra til dáða í þeim efnum.

Í blálokin, vegna þess að tíminn er búinn, vil ég nefna það hér og hvetja hæstv. ráðherra til að liðka fyrir því að hér verði nú loksins samþykkt tillaga sem liggur fyrir þinginu um að viðurkenna þjóðarmorðið á kristnum Armenum, þjóðarmorð Tyrkja á kristnum Armenum, sem hefur margsinnis, sjö sinnum, verið lagt hér fyrir þingið og aldrei náð í gegn. Nú hefur það gerst í þessu máli að Bandaríkin hafa viðurkennt þetta þjóðarmorð, (Forseti hringir.) sem eru mikil tíðindi. Það eru fjölmargar þjóðir sem hafa gert það og við Íslendingar eigum að vera meðal þeirra. (Forseti hringir.) Ég vil hvetja hæstv. utanríkisráðherra til að beita sér í þeim efnum. En að þessu sögðu, herra forseti, þakka ég fyrir góðar umræður og ágæta skýrslu.