151. löggjafarþing — 91. fundur,  6. maí 2021.

utanríkis- og alþjóðamál.

765. mál
[17:55]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S):

Virðulegur forseti. Ég vil eins og aðrir þingmenn þakka hæstv. ráðherra fyrir þessa skýrslu og það ágæta samtal sem við eigum hér um utanríkismál. Af mörgu er að taka en mig langar samt sem áður að byrja á mínu uppáhaldsutanríkismáli sem eru norðurslóðir og hlutverk okkar sem norðurslóðaríkis. Ég ætla að hrósa hæstv. ráðherra sérstaklega fyrir hvernig haldið hefur verið á þeim málaflokki á síðustu árum. Mér finnst hafa tekist einstaklega vel til í formennskutíð okkar í Norðurskautsráðinu þrátt fyrir að Covid hafi kannski skemmt fyrir upphaflega planinu þar að lútandi. Mér finnst svo mikilvægt að umræðan um norðurslóðir hefur þroskast mikið á síðustu árum og að við sem Íslendingar áttum okkur á því að við búum á norðurslóðum og eigum í rauninni allt okkar undir þróun á þessu svæði og því að áfram verði hægt að búa á þessu svæði á jarðarkringlunni sem er að verða fyrir hvað mestum breytingum vegna loftslagsvárinnar. Maður sér það svo glöggt hver áhugi annarra ríkja er á norðurslóðamálum, ríkja langt frá norðurslóðum. Þau eru búin að kveikja á því að það eru augljósar ógnanir í þeim breytingum sem á svæðinu eru að verða en það eru líka tækifæri. Við þurfum auðvitað að huga að því að hagnýta okkur þau tækifæri sem þarna leynast á sama tíma og við búum okkur undir ógnirnar og bregðumst við loftslagsvánni með ráðum og dáð. Það eru kannski næg tækifæri síðar á þessu þingi til að ræða meira um norðurslóðamálin þar sem núna liggur fyrir þingsályktunartillaga um endurskoðun norðurslóðastefnunnar. Ég ætla því að vinda mér frekar í aðra þætti.

Í þróunarsamvinnunni held ég að sé svo mikilvæg sú áhersla, sem hefur verið uppi á borðunum á síðustu misserum, að tengja þróunarsamvinnuna og atvinnulífið saman og átta okkur á því að við náum ekki heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna öðruvísi en að við vinnum öll saman að því. Það er ekki bara stjórnvalda að ná þessu, atvinnulífið verður að koma með okkur í þessa vegferð. Þá verður spennandi að fylgjast með því hverju Heimstorgið, sem er þjónustuborð atvinnulífsins sem Íslandsstofa heldur utan um, mun skila okkur. Mér finnst það mjög áhugavert verkefni og verður spennandi að fylgjast með því.

Hér segir í einni millifyrirsögninni: Lífskjör Íslendinga byggjast á frjálsum vöru- og þjónustuviðskiptum. Því er ég svo sannarlega sammála. Tímar eins og í gegnum Covid og það sem við höfum verið að upplifa hér ættu að opna augu okkar enn frekar fyrir mikilvægi þess að vörur og þjónusta flæði frjálst yfir landamærin. Við erum jú eyja í Norður-Atlantshafi en við viljum ekki upplifa eitthvað svipað og kemur fram í skáldsögunni Eyland. Það væri ekki mjög áhugaverð framtíðarsýn. Eiginlega er ótrúlegt hvað sumir í þessari umræðu hafa einhvern veginn ekki áttað sig á því hversu mikilvægt er að við eigum viðskipti við aðrar þjóðir og að flutningaleiðir og aðrar samskiptaleiðir séu ávallt opnar og með sem minnstum hindrunum.

Mér finnst áhugavert að sjá að Íslandsstofa er að vinna mjög góða hluti og vegna þess að við höfum fjallað hér á sínum tíma um frumvarp um breytingu á lögum um Íslandsstofu, þar sem við vorum að breyta fyrirkomulagi þeirrar stofnunar sem þá var en er nú samstarfsvettvangur atvinnulífs og hins opinbera, er gaman að sjá hvað við erum í raun að ná miklum árangri og hvað markmið frumvarpsins virðast vera að nást vel fram. Jafnvel á þeim erfiðu tímum sem við höfum verið að upplifa höfum við til að mynda séð að þessar atvinnugreinar okkar sem flokkast reyndar líka undir þjónustugreinar, ég er að tala um skapandi greinar, hvort sem við erum að tala um tölvuleikjaiðnaðinn eða aðrar skapandi greinar, eru að ná miklum árangri og eru að verða raunveruleg stoð í efnahagslífi okkar. Ég hef verið talsmaður þess að þetta sé sú auðlind sem við eigum að virkja hvað mest, þ.e. mannauðurinn. Þarna eru mikil tækifæri og við sem lítið land munum auðvitað ekki fullnýta þau öðruvísi en að það sé öflugt samstarf atvinnulífsins og hins opinbera til að vinna að því. Og mér sýnist það ganga býsna vel hjá okkur.

Þá ætla ég aðeins að færa mig yfir í öryggismálin og þær áskoranir sem birtast okkur þar. Út frá staðsetningu okkar hér á norðurslóðum sjáum við að þetta svæði sem við viljum að sé lágspennusvæði er kannski ekki endilega lágspennusvæði lengur, spennan á svæðinu er alla vega að aukast mikið. Þar af leiðandi er mjög brýnt að Norðurskautsráðið og þær þjóðir sem skipa það haldi vel utan um samtalið. Við verðum með einhverjum hætti að tryggja að alþjóðleg lög séu ávallt virt. En það er fleira sem kemur til og það eru þessar fjölþáttaógnir sem er farið ágætlega yfir í skýrslunni. Við þurfum að opna augu okkar enn frekar fyrir þeim. Ég ætla að nefna netöryggismálin sérstaklega. Ég held að við verðum að viðurkenna að við höfum ekki staðið okkur nógu vel þegar kemur að netöryggismálum. Við erum að hlaupa, held ég, nokkuð hratt núna en við þurfum að hlaupa enn þá hraðar. Ég held að þarna séum við að tala um raunverulega mikla ógn, örugglega fljótlega á eftir náttúruöflunum okkar.

Varðandi náttúruógnir þá langar mig að minnast sérstaklega á að hér er kafli um hafið og málefni hafsins og við höfum auðvitað sett það á dagskrá í okkar alþjóðasamstarfi. Bæði hefur það verið einn áhersluþátta okkar í Norðurskautsráðinu og líka í Norðurlandaráði að við áttum okkur alltaf á því hvað við eigum gríðarlega mikið undir þegar að hafinu kemur og hvað þær breytingar sem eru að eiga sér stað á norðurslóðum geta haft mikil áhrif á matarkistuna okkar og á lífríkið allt í kringum okkur. Súrnun sjávar er auðvitað raunveruleg ógn.

Vegna þess að ég lagði hér áherslu á frjáls viðskipti varð mér mjög hugsað til þess þegar ég horfði á heimildarmynd á Netflix um daginn um sjálfbærar veiðar þar sem því er í rauninni haldið fram að ekki sé neitt til sem heitir sjálfbærar fiskveiðar. Ég held að sami höfundur hafi fyrir nokkrum árum gert heimildarmynd um nautgripaiðnaðinn eða nautakjötsframleiðslu en nú var sjónum sem sagt beint að hafinu og látið að því liggja að einhverjar vottanir og annað um sjálfbærni væru bara eitthvert „puff“. Ég hef bara gríðarlegar áhyggjur fyrir hönd lands eins og Íslands sem á mjög mikið undir sjávarútveginum. Hann hefur verið okkar öfluga atvinnugrein sem hefur staðið styrkum fótum þegar aðrar atvinnugreinar hafa átt undir högg að sækja. Þá er auðvitað mikilvægt að við náum að tryggja að ásýnd okkar sé sú að hér séu stundaðar sjálfbærar veiðar, að fiskveiðistjórnarkerfi okkar, sem við vitum að er það besta í heimi, sé tryggt og að þau skilaboð skili sér þarna út að um sjálfbærar veiðar sé að ræða.

Á alveg síðustu mínútunni, ég sé að maður kemst ekki yfir næstum því allt, langar mig aðeins að nefna ÖSE. Ég á sæti í þingmannanefnd ÖSE og það verður að segjast alveg eins og er að sú þróun sem hefur átt sér stað hjá Öryggis- og samvinnustofnun Evrópu er mikið áhyggjuefni. Við sáum það þegar starfslok Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur hjá ÖSE voru allt í einu kunngjörð sem kom okkur auðvitað mjög á óvart og sýnir glöggt ákveðna baráttu sem á sér stað innan stofnunarinnar. Það brýnir okkur enn frekar í því, í samstarfi okkar við lítt þenkjandi ríki um mannréttindi, sem við höfum ávallt staðið fyrir, hvað við þurfum nauðsynlega að standa vaktina þegar að þeim málum kemur. Ég ætlaði að fara út í Belarús og svo eitthvað fleira þessu tengt en sé að ég næ því ekki því að ég er komin yfir á tíma.

Ég vil bara að lokum þakka kærlega fyrir þessa skýrslu. Hún er mjög mikilvæg og gott gagn inn í umræðuna og gott að sjá og heyra hvað þingmenn eru duglegir að taka þátt í þessari umræðu.