151. löggjafarþing — 92. fundur,  10. maí 2021.

veiðigjöld og arður í sjávarútvegi.

[13:07]
Horfa

Logi Einarsson (Sf):

Herra forseti. Þrátt fyrir framfarir sem hæstv. forsætisráðherra talar um hafa veiðigjöldin samt sem áður lækkað um meira en helming á því tímabili sem hún hefur stýrt og hagur útgerðarinnar hefur vænkast á sama tíma. Sú upphæð sem innheimt er nægir ekki einu sinni til að hafa umsjón með greininni. Hún er minni en veiðileyfagjöld af stangveiðileyfum í lax- og silungsám. Ég hlýt að endurtaka spurninguna, því ég var ekkert að ræða allt þetta sem hæstv. forsætisráðherra kom inn á, ég spyr bara: Finnst henni núverandi gjaldtaka skila rentu sem er sanngjörn, ekki síst þegar hún er sett í samhengi við arðinn og stöðu fyrirtækjanna?