151. löggjafarþing — 92. fundur,  10. maí 2021.

veiðigjöld og arður í sjávarútvegi.

[13:08]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Hv. þingmaður getur ekki komið hingað upp og sagt að gjöldin hafi lækkað. Hann veit auðvitað miklu betur en svo. Hann veit að þau eru afkomutengd. Hann veit að þau munu hækka á þessu ári miðað við síðasta ár. Ætlar hv. þingmaður að koma hér upp í ræðustól þá og segja að ég hafi hækkað veiðigjöldin? (Gripið fram í.) Nei, hann gerir það ekki. Hv. þingmaður verður að sætta sig við það að sanngjörn renta snýst um þá stóru heildarmynd sem ég var að fara yfir. Hún snýst um það m.a. hvaða þak við viljum setja á eignarhluti í nýtingarheimildum. Hún snýst um þetta stóra samspil. Við það verður hv. þingmaður bara að sætta sig. Mér finnst þetta vera stærra mál. Ég held að við munum ekki leysa álitamálið um sanngjarna rentu með því að ræða hvort prósentutalan eigi að vera 33% eins og nú er eða hvort hún eigi að vera hærri eða lægri. Það held ég ekki að leysi það mál því við þurfum að horfa á þetta í heildarsamhengi fiskveiðistjórnarkerfisins. Hv. þingmaður hefur hins vegar áður spurt mig að þessu og ég svaraði því þá og svara því aftur nú: Ég tel að breytingarnar sem gerðar voru á fyrirkomulagi veiðigjalda í minni tíð hafi verið mjög til bóta.