Bráðabirgðaútgáfa.

151. löggjafarþing — 92. fundur,  10. maí 2021.

heimahjúkrun og umönnunarbyrði.

[13:19]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegur forseti. Það eru gríðarlega mikilvæg sjónarmið sem hv. þingmaður snertir hér á í fyrirspurn sinni að því er varðar umönnunarbyrði sérstaklega kvenna í samfélaginu og verðugt og mikilvægt að benda á það. Hv. þingmaður spyr beinlínis hvað heilbrigðisráðherra hafi gert eða sé að gera til að koma til móts við og breyta þessari stöðu. Þá vil ég nefna sérstaklega nýjan samning sem var undirritaður milli ráðuneytisins og Reykjavíkurborgar um heimahjúkrun í Reykjavík en í þeim samningi er lögð áhersla á að efla getu heimahjúkrunar í Reykjavík til að nýta velferðartækni í auknum mæli samhliða því að fjölga vitjunum, auka sérhæfingu og veita þverfaglega heilbrigðisþjónustu í meira mæli til fólks í heimahúsum. Þetta er risastór samningur og var undirritaður í miðju Covid þannig að það fór kannski ekki eins mikið fyrir þeirri undirritun og hefði verið tilefni til því að þarna erum við að tala um samning sem er upp á 2 milljarða kr. á ársgrundvelli. Þetta er því risastórt verkefni. Annað sem ég vil nefna er rekstur sérstaks öldrunarteymis hér á höfuðborgarsvæðinu sem var líka styrktur en með þjónustu þess teymis er verið að stefna að því að fækka sjúkrahúsinnlögnum. Það getur líka verið liður í að vinna gegn þeim vanda sem oft skapast á bráðamóttöku Landspítala.

Þarna erum við að tala um tvö virkilega stór verkefni sem eru til þess að bæta þessa stöðu. Það er þó þannig og ég held að það finni allir fyrir því, sérstaklega núna í gegnum Covid, að þetta snýst ekki bara um umönnunarbyrði heldur líka um skyldur sem hvíla frekar á herðum kvenna en karla í heimilisrekstri sem koma til af alls konar álagi í kringum Covid-19. Þess vegna þurfum við að hafa sérstaklega kynjagleraugun á þegar við erum að greina áhrif faraldursins.