151. löggjafarþing — 92. fundur,  10. maí 2021.

heimahjúkrun og ummönnunarbyrði.

[13:21]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. heilbrigðisráðherra fyrir svörin. Það væri líka gott að fá að vita hvað er í gangi í sambandi við hjúkrunarheimilin.

En hver er staðan í samningum við sjúkraþjálfara, talmeinafræðinga og varðandi skimun krabbameina og biðlista í kerfinu í sambandi við bæði liðskiptaaðgerðir og annað? Hver er staðan í þeim málum? Eins og við vitum hefur þörf á sjúkraþjálfun stóraukist í Covid-málum og við vitum af stórum biðlistum hjá talmeinafræðingum. Um það hefur ekkert heyrst. Talað hefur verið um að verið sé að semja við bæði sjúkraþjálfara og talmeinafræðinga en ekkert hefur heyrst um að samningar séu að nást. Og hver er staðan? Er verið að semja eða er ekki verið að semja? Hvers vegna er ekki búið að ná samningum ef verið er að semja?