151. löggjafarþing — 92. fundur,  10. maí 2021.

sérhæfð sérdeild fyrir einhverf börn.

[13:26]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Lilja Alfreðsdóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Ólafi Ísleifssyni fyrir að vekja máls á þessu mikilvæga réttindamáli. Ég tek undir með hv. þingmanni, það er mjög mikilvægt að skólakerfið okkar sé þannig að öll börn finni sér stað. Það er mjög brýnt. Ég hef verið að líta á þetta mál sérstaklega út frá eftirlitshlutverki ráðuneytisins og kanna hvernig við getum unnið að því frekar að stuðla að því að fleiri börn komist að út frá þeirri greiningu sem þau eru búin að fá eins og er í þessu tilfelli.

Ég vil þá vekja sérstaka athygli á nýrri menntastefnu. Menntastefnan kveður á um að við skulum leggja áherslu á snemmbæran stuðning. Þarna sjáum við að fyrir liggur greining og tillaga um að barnið eigi að vera í sérdeild en svo kemur annað svar frá sveitarfélaginu. Þetta er auðvitað eitthvað sem mennta- og menningarmálaráðuneytið vill skoða frekar, bara upp á framkvæmd hvað það varðar að öll börn eigi rétt á menntun við sitt hæfi. Þannig munum við nálgast það mál. Viðbrögðin eru því þau að ég hef svo sannarlega litið á þetta mál og mér finnst það brýnt. Aðgerðirnar eru inni í menntastefnu og frekari aðgerðir fyrirhugaðar til að uppfylla þessi lög.