151. löggjafarþing — 92. fundur,  10. maí 2021.

sérhæfð sérdeild fyrir einhverf börn.

[13:28]
Horfa

Ólafur Ísleifsson (M):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svarið og leyfi mér að vænta þess, í ljósi orða hæstv. ráðherra, að við munum heyra alveg á næstunni nánar um til hvaða aðgerða nákvæmlega hæstv. ráðherra hyggst grípa vegna þessa máls. Foreldrar sóttu ekki um ölmusu eða gjafir í þágu barns síns. Þau lögðu fram umsókn á grundvelli lögvarins réttar barnsins til að fá kennslu við sitt hæfi og þeim er svarað með tölfræðilegum upplýsingum sem ekkert erindi eiga til þeirra. Það er kaldhæðnislegt að sá sem undirritar bréf borgaryfirvalda ber starfsheitið verkefnastjóri Menntunar fyrir alla. Alla? Nei, bréfið staðfestir að svo er ekki.

Herra forseti. Hæstv. menntamálaráðherra hlýtur að lýsa því á næstunni (Forseti hringir.) hvernig hún ætlar að tryggja að þessi réttur grunnskólalaga nái til allra barna. Allra.