151. löggjafarþing — 92. fundur,  10. maí 2021.

fjárheimildir til eftirlits gegn spillingu.

[13:35]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P):

Virðulegur forseti. Ég efast ekki um að þessar stofnanir sinni verkefnum sínum af heilindum. Hins vegar er mjög skýrt að verkefnaálagið er óbreytt. Það er enn þá mikið þrátt fyrir aukninguna. Einmitt vegna þeirrar aukningar þurfti aukið fjármagn en því var ekki fyrir að fara. Það er líka skýrt að varasjóðir málaflokkanna eiga við um ófyrirséð fjárútgjöld. Í þessu var ekkert ófyrirséð. Það kom fyrir afgreiðslu fjárlaga þar sem beðið var um fjárheimildir fyrir því og þær fengust ekki.

Við búum við það að fjármagn býr til völd. Eins og kom fram hjá nýjum framkvæmdastjóra Íslandsdeildar Transparency International í Silfrinu í gær sjáum við birtingarmynd þess í Samherjamálinu þar sem sá auður sem hefur safnast á fáar hendur er notaður til að ráðast á fjölmiðla og eftirlitsstofnanir. Við sjáum fyrirkomulag í stjórn auðlindamála sem er mannanna verk.

Og spurningin að lokum er bara: Hver er ábyrgð okkar í pólitíkinni á ákvörðunum um fyrirkomulag sem býr til þessa auðsöfnun og möguleika til að ráðast (Forseti hringir.) á eftirlitsstofnanirnar eins og Seðlabankann og fjölmiðla þegar þær eru klárlega að reyna að sinna hlutverki sínu þrátt fyrir að fjárheimildir vanti?