151. löggjafarþing — 92. fundur,  10. maí 2021.

fjárheimildir til eftirlits gegn spillingu.

[13:36]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Það er mjög mikilvægt að við horfum til þess hvernig við getum staðið betur að málum og leitum m.a. fyrirmynda annars staðar frá. Það er eitt af því sem við höfum verið að gera. Hv. þingmaður nefnir hér tengsl hagsmunaafla og stjórnvalda og annarra og það var m.a. eitt af mínum verkum að leggja fram frumvarp til laga um varnir gegn hagsmunaárekstrum sem var samþykkt. Það byggði m.a. á tillögum frá GRECO-nefndinni þannig að við þurfum auðvitað líka að horfa til þess hvað við getum lært af því sem við höfum fengið frá alþjóðlegum stofnunum. Hv. þingmaður spyr líka hvað við getum gert til að takast á við þetta. Aukið gagnsæi er auðvitað hluti af því og það að við höfum núna tekist á við varnir gegn peningaþvætti með fullnægjandi hætti er mikið framfaramál. En þetta er hins vegar eilífðarverkefni.

Mig langaði þó að nefna, af því að ég kom því ekki að áðan, að umboðsmaður Alþingis er stofnun sem heyrir beint undir þingið. Ef áhöld eru um það hvort embættið njóti nægjanlegra fjárveitinga til að geta sinnt mjög mikilvæga hlutverki sínu er það auðvitað forsætisnefnd þingsins sem á að takast á við það. (Forseti hringir.) Ég vitnaði til þess sem ég hef verið að gera í ráðuneyti mínu en það er mikilvægt að réttir aðilar taki á þessu og í tilfelli umboðsmanns hlýtur það að vera þingið sem þarf þá að taka til gagngerrar skoðunar hvort embættinu séu tryggðar nægar fjárheimildir.