151. löggjafarþing — 92. fundur,  10. maí 2021.

undirbúningur þjóðgarðs á Vestfjörðum.

[13:38]
Horfa

Halla Signý Kristjánsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Uppi eru áform um stofnun þjóðgarðs á sunnanverðum Vestfjörðum. Svæðið er stórt og nær m.a. til Dynjanda, Geirþjófsfjarðar, Vatnsfjarðar og Hrafnseyrar, eða um 351 km² svæði sem er um 4% af Vestfjörðum. Með stofnun þjóðgarðs á svæðinu er verið að tengja saman friðlönd á svæðinu og friðlýsa undir sama verndarflokk. Mikil sátt er um þau svæði sem upp eru talin hér að framan sem friðunarsvæði. Það er ljóst að mörg tækifæri liggja í stofnun þjóðgarðs á svæðinu en þjóðgarður er stór ákvörðun sem þarf að undirbúa vel og í sátt við samfélögin. Í mínum huga þarf það að liggja fyrir áður en þjóðgarður verður stofnaður að samgöngumannvirki sem ætlast er til að verði reist á svæðinu fái enn að rísa og ekki sé bannað að nýta orku þar sem það á við og að atvinnustarfsemi sé ekki skert sérstaklega, hvorki á landi né sjó. Mikilvægt er að sveitarfélögin hafi góða aðkomu að ákvörðun um reglu á svæðinu.

En því er ósvarað hvernig staðið verður að fjármögnun á uppbyggingu þjóðgarðsins. Nú má ætla að þjóðgarður sé aðdráttarafl ferðamanna og íbúa svæðisins. Því þarf að undirbúa umferð ferðamanna. Það kostar bæði að vernda umhverfið og bæta aðgengi. Fjárframlög verða að vera tryggð fyrir fram þannig að um innantóm loforð sé ekki að ræða. Því vil ég spyrja hæstv. ráðherra í fyrra skipti: Hvað er áætlað að þessi uppbygging kosti næstu fimm árin og er þessi fjármögnun tryggð? Hvernig er samráðsferli og hvernig hefur samráðsferli verið háttað við sveitarfélögin um verkefnið og hvernig er samráðsferli um þjóðgarðinn háttað við íbúa Vestfjarða?