151. löggjafarþing — 92. fundur,  10. maí 2021.

undirbúningur þjóðgarðs á Vestfjörðum.

[13:43]
Horfa

umhverfis- og auðlindaráðherra (Guðmundur Ingi Guðbrandsson):

Hæstv. forseti. Hér var nefnd tímasetningin 17. júní. Það var að ósk heimamanna sem hún var nefnd á sínum tíma og við erum bara að vinna að því að geta uppfyllt þá ósk. Tengingin við Hrafnseyri er náttúrlega augljós með fæðingarstað Jóns Sigurðssonar. Í stjórnarsáttmálanum okkar stendur að skoða eigi möguleika á fleiri þjóðgörðum en þjóðgarði á miðhálendinu. Þetta er eitt af því sem við fórum í, vinna sem við settum í gang og hún hefur verið unnin í miklu samstarfi við heimafólk og aðra þá aðila sem koma að málum. Mér er ekki kunnugt um að ósætti sé um verkefnið. Ég held að mikill áhugi sé á því. En vissulega er þetta stórt og mikið verkefni þar sem horfa þarf til ýmissa þátta. Ég fullvissa hv. þingmann um að verið er að gera áætlun um hvað uppbygging þarna muni kosta. Hún mun liggja til grundvallar ákvörðunum um hvernig það verður fjármagnað. Ég geri ráð fyrir að landsáætlun um uppbyggingu innviða sé þar lykilstjórntæki sem við munum beita.