151. löggjafarþing — 92. fundur,  10. maí 2021.

um fundarstjórn.

[13:50]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M):

Herra forseti. Sá sem hér stendur er hokinn af reynslu við að bíða eftir svörum við fyrirspurnum frá ráðherrum og hæstv. félagsmálaráðherra m.a. hefur gengið í berhögg við lög um ráðherraábyrgð og þingsköp í tengslum við tafir sínar á svörum. En í þetta sinn, herra forseti, langar mig til að beina athygli að þskj. 870, sem er skrifleg fyrirspurn til fjármálaráðherra um ofanflóðasjóð og kom fram á Alþingi 4. febrúar síðastliðinn. Ég kannast ekki við, herra forseti, að það hafi verið beðið um frest til að svara þessari fyrirspurn sem er nokkuð skýr og einföld, en nú eru liðnir tveir mánuðir rúmir, fer að halla í tvo og hálfan mánuð, án þess að svar komi við þeirri spurningu. Það er satt að segja hvimleitt, herra forseti, að þurfa að koma hér upp hvað eftir annað til að fara fram á það sjálfsagða, að ráðherrar svari fyrirspurnum frá þingmönnum í samræmi við lög og reglur.