151. löggjafarþing — 92. fundur,  10. maí 2021.

um fundarstjórn.

[13:51]
Horfa

Þorgerður K. Gunnarsdóttir (V):

Virðulegi forseti. Ég vil taka undir með systrum mínum sem töluðu hér áðan, og fleiri þingmönnum, varðandi það að þingið hafi raunveruleg tæki til að sinna eftirlitshlutverki sínu gagnvart framkvæmdarvaldinu. Mér finnst sá bragur hafa verið á að svör við eðlilegum fyrirspurnum eru ítrekað að dragast og ítrekað er beðið um frest af hálfu framkvæmdarvaldsins. Það er svo sem gott og blessað, sérstaklega ef spurningarnar kunna að vera umfangsmiklar. En þegar um er að ræða hreina og klára eðlilega fyrirspurn sem á að vera fljótlegt að svara vil ég hvetja hæstv. forseta til að ýta á ráðherra. Ég geri mér grein fyrir því að sumar spurningar geta líka verið mjög erfiðar fyrir ráðherra og ríkisstjórn, sérstaklega kann að vera erfitt að svara fyrirspurnum á kosningaári. En þetta er aðhaldstæki okkar, þetta er tæki okkar hér til að sinna því sem við erum kjörin til. Ég vil minna á það sem stendur m.a. (Forseti hringir.) í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar um að auka eigi virðingu og vægi þingsins. Þá finnst mér kominn tími til að þeim orðum fylgi líka efndir.