151. löggjafarþing — 92. fundur,  10. maí 2021.

um fundarstjórn.

[13:53]
Horfa

Hanna Katrín Friðriksson (V):

Herra forseti. Mér er bara ljúft og skylt að koma hingað upp aftur af því að ég ruglaðist áðan, eins og hæstv. forseti benti mér á, og fór að tala um skýrslur. Mér til vorkunnar eru þær ófáar skýrslurnar sem líka er beðið eftir og eru komnar fram yfir síðasta söludag. En þetta er sem sagt skrifleg fyrirspurn sem beðið er svara við, komin langt fram yfir þann tíma sem alla jafna er viðhafður við að svara slíkum fyrirspurnum. Það er einfaldlega verið að fara fram á að ráðherra standi skil á því hvernig þessi hálfi milljarður hafi nýst, hvernig fjármagnið hafi skipst á milli háskólakennslu til eininga annars vegar og hins vegar til endur- og símenntunarstofnana háskólanna hins vegar sem eru í beinni samkeppni við fræðslufyrirtæki á markaði, lítil sem stór. Eftirlitsstofnun EFTA er að skoða þetta og fleiri aðilar. Það vekur satt best að segja, þrátt fyrir þann mikla hug sem stjórnvöld hafa sýnt í að tefja birtingu skýrslna og svara (Forseti hringir.) við fyrirspurnum af ýmsu tagi, sérstaka athygli að farið skuli í þá vegferð að fara aftur í nákvæmlega (Forseti hringir.) þessa styrki án þess að fyrir liggi, ef rétt er, greining á því hvernig þeir hafi verið nýttir, (Forseti hringir.) hvort það hafi yfir höfuð verið löglegt og hvort þarna sé enn einu sinni verið að dulbúa ríkisvæðingu.