151. löggjafarþing — 92. fundur,  10. maí 2021.

um fundarstjórn.

[13:58]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (M):

Herra forseti. Ég ætlaði að koma hér upp og kvarta yfir því að fyrirspurnum mínum frá því í mars hefði ekki verið svarað en svo koma menn hér upp með fyrirspurn síðan í desember eða skýrslubeiðni þannig að ég hlýt að þurfa að bíða töluvert eftir því að fá svör við mínu. Ég vil samt taka undir með hv. þingmönnum, hæstv. forseti, að það er vitanlega engin hemja hversu langan tíma tekur að svara þessum fyrirspurnum og skila skýrslum, ekki síst í ljósi þess að ráðuneytin hafa sjaldan verið jafn mikið mönnuð eins og akkúrat núna. Hv. þm. Guðmundur Ingi Kristinsson nefnir fyrirspurn í desember og hv. þm. Oddný G. Harðardóttir gerir það líka, fimm mánaða gamlar. Síðan erum við hér með Covid-fyrirspurn. Við þingmenn erum búin að vera mjög liðleg, herra forseti, að hleypa Covid-málunum svokölluðu hratt og örugglega í gegnum þingið þannig að nú hljótum við að gera þá kröfu að hæstv. ráðherrar og ráðuneyti svari þeim spurningum sem snerta einmitt þessi Covid-mál og geri það jafn hratt og örugglega og faglega og þingið hefur haldið á málum þegar brýn Covid-mál eru keyrð í gegnum það. Svo minni ég enn og aftur á það sem hv. þm. Þorsteinn Sæmundsson sagði, hann á líklega Íslandsmet í því að bíða eftir svörum.